40% íbúa Ischgl með mótefni við kórónuveirunni

Rúmlega 40% íbúa skíðaþorpsins Ischgl hafa greinst með mótefni gegn …
Rúmlega 40% íbúa skíðaþorpsins Ischgl hafa greinst með mótefni gegn kórónuveirunni. AFP

Rúmlega 40% íbúa Ischgl í Austurríki eru með mótefni við kórónuveirunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, en aðeins brot af þeim vissi af smitinu fyrir, að því er kemur fram í frétt á vef þýska vikuritsins Der Spiegel.

Í skíðaþorpinu Ischgl í austurrísku Ölpunum voru í byrjun mars kjöraðstæður fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Í pökkuðum öldurhúsum bæjarins söfnuðust skíðamenn saman eftir að hafa verið í brekkunum og veiran átti greiða leið milli manna, sem báru hana síðan víða um lönd, meðal annars til Íslands.

Ný rannsókn sýnir að veiran náði einnig mikilli útbreiðslu meðal íbúa Ischgl. Vísindamenn við Læknaháskólann í Innsbruck báðu alla íbúa þorpsins að taka þátt í rannsókninni. Á milli 21. og 27. apríl voru tekin blóðsýni og strokur úr koki til að greina umfang smits í þorpinu. Tæplega 1.500 af 1.600 íbúum tóku þátt.

Þegar sýnin voru tekin höfðu heilbrigðisyfirvöld náð stjórn á ástandinu og því voru aðeins sárafá virk smit. Hins vegar greindist mótefni gegn kórónuveirunni í sýnum úr 42,4% íbúa Ischgl. Til þess að fullvissa sig um að greiningin væri rétt voru notuð fjögur mismunandi próf á hvert sýni.

Í frétt Der Spiegel er vitnað í stjórnanda rannsóknarinnar, Dorothee von Laer, sem sagði á blaðamannafundi að ekki hafi verið sýnt fram á að annars staðar hafi jafn hátt hlutfall íbúa smitast, þótt verið geti að svo sé þar sem veiran sé hvað virkust í Brasilíu og á Indlandi.

Sagði hún að þrátt fyrir þessa miklu útbræðslu væri ekki um að ræða hjarðónæmi. Til þess þyrftu 60-70% íbúa að smitast. Engu að síður veitti þetta háa hlutfall með mótefni nokkra vernd.

Það vakti athygli við rannsóknina að aðeins 15% þeirra, sem greindust með mótefni, vissu af smitinu fyrir og höfðu fengið greiningu. 85% höfðu hins vegar ekki fengið jákvæða skimun. Margir hefðu ekki náð í gegn í símaver heilbrigðisyfirvalda, aðrir hefðu talið að þeir væru með vægt kvef og þá hefði verið algengt að fólk hefði verið með særindi í hálsi og hósta í tvo, þrjá daga.

Von Laer sagði að missir lyktar- og bragðskyns virtist óyggjandi merki um kórónuveirusmit. Greinst hefði mótefni gegn veirunni hjá öllu þeim, sem lýst hefðu slíkum einkennum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert