Trump kannast ekki við verðlaunafé Rússa

Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, ítrekar að hvorki Trump né …
Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, ítrekar að hvorki Trump né Mike Pence varaforseti hafi heyrt af því að Rússar hafi sett verðlaunafé til höfuðs bandarískum hermönnum í Afganistan. AFP

Rússnesk stjórnvöld buðu hermönnum tengdum talíbönum fé fyrir að myrða bandaríska hermenn. New York Times greindi frá þessu á föstudag og segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi fengið veður af þessu á upplýsingafundi forsetans á skrifstofu hans í mars. 

Í frétt NYT segir að ríkisstjórn Trumps hafi velt fyrir sér svo mánuðum skiptir hvernig bregðast eigi við þessum upplýsingum en Hvíta húsið segir ekkert til í því að forsetinn hafi verið upplýstur um málið, þ.e. að Rússar hafi sett verðlaunafé til höfuðs bandarískum hermönnum í Afganistan.  

Í umfjöllun NYT segir að stjórnvöld í Rússlandi hafi sett aukinn kraft í aðgerðir sínar í þeim tilgangi að grafa undan stjórn Bandaríkjanna og bandaþjóðum á sama tíma og Trump stóð í friðarviðræðum við talíbana, en samkomulag þess efnis var undirritað í febrúar. 

Hópurinn á vegum rússneskra stjórnvalda sem sá um aðgerðirnar er sagður sá sami og skipulagði morðtilraunina á gagnnjósnaranum Sergei Skripal í mars 2018. 

Stjórnvöld í Kreml kannast ekki við þessar ásakanir að sögn Dmitrís Peskovs, talsmanns rússneskra stjórnvalda. „Ef einhver ásakar okkur munum við bregðast við,“ segir hann. Zabihullah Mujahid, talsmaður talíbana, kannast ekki heldur við að hermönnum hafi staðið þetta til boða og segir skýrsluna tilraun til að koma óorði á talíbana.

Kayleigh McEnany, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, ítrekar að hvorki Trump né Mike Pence varaforseti hafi heyrt af málinu og segir það benda til ónákvæms fréttaflutnings New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert