Fjöldi smita í Texas nær nýjum hæðum

AFP

Útbreiðsla kórónuveirunnar í Texasríki í Bandaríkjunum hefur tekið „hraða og hættulega stefnu“ samkvæmt Greg Abbott ríkisstjóra. 

„Á síðustu vikum hefur fjöldi nýrra smita á hverjum degi farið úr 2.000 í 5.000,“ segir Abbott. Fjöldi nýrra smita hefur hækkað talsvert í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna eftir að sóttvarnatakmörkunum var aflétt. 

Fjöldi staðfestra smita í Bandaríkjunum er nú kominn yfir 2,5 milljónir. 

Yfirvöld í Texas, Flórída og fleiri ríkjum hafa hert á takmörkunum að nýju og varað við því að geta sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sé að þolmörkum komin. Abbott segir að allt að 5.000 íbúar þurfi innlögn á sjúkrahús á degi hverjum vegna veirunnar. 

Fjöldatakmarkanir hafa verið hertar á veitingastöðum og öldurhús hafa þurft að loka að nýju í Texas. Íbúar eru hvattir til að nota andlitsgrímur á almannafæri og gæta að hreinlæti. 

Í Austin er íbúum skylt að hylja vit sín við ákveðnar aðstæður og var þeirri tilskipun mótmælt yfir helgina á götum borgarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert