Rannsakar 30.000 meinta barnaníðinga

Þýskir lögreglumenn að störfum með grímur fyrir vitum sér.
Þýskir lögreglumenn að störfum með grímur fyrir vitum sér. AFP

30.000 „nafnlausir einstaklingar“ eru grunaðir um að tengjast umfangsmiklum barnaníðshring sem lögregluyfirvöld í Þýskalandi eru með til rannsóknar. Rannsóknin hófst í október þegar meintur barnaníðingur var handtekinn í borginni Bergisch Gladbach í Þýskalandi en þá grunaði engan hversu umfangsmikill hringurinn væri.

„Ég bjóst ekki við, ekki einu sinni smávegis, hversu gríðarlega mikið barnaníð er til á netinu. Það sem rannsakendur hafa afhjúpað er mjög óhugnanlegt. Við verðum að gangast við því að barnaníð á netinu er miklu stærra vandamál en við héldum áður,“ sagði Peter Beisenbach, dómsmálaráðherra sambandsríkisins Norðurrínar-Vestfalíu, við fjölmiðla fyrr í dag.

Netglæpadeild lögreglunnar í Norðurrín-Vestfalíu rannsakar nú 30.000 „nafnlausa einstaklinga“ sem tengjast mögulega hringnum sem var uppgötvaður eftir handtökuna í Bergisch Gladbach. Þessir 30.000 nota dulnefni á vefnum og því vita yfirvöld ekki hverjir þessir einstaklingar eru. „Við ætlum að draga gerendur og þá sem gera þessa starfsemi mögulega út úr leyndarhjúpi netsins,“ lofaði Beisenbach.

Tíu ára fangelsi og svo ótímabundið á geðdeild

Síðan í október hafa rannsakendur náð að bera kennsl á 70 grunaða einstaklinga og einn af þeim hefur þegar verið dæmdur – 27 ára hermaður sem fékk 10 ára fangelsisdóm og að honum loknum verður hann vistaður á geðdeild ótímabundið.

Nokkrir umfangsmiklir barnaníðshringir hafa verið afhjúpaðir í Þýskalandi síðustu 18 mánuði og hefur það reynst mörgum Þjóðverjum áfall hversu algeng þessi glæpastarfsemi er. Fyrr í þessum mánuði voru 11 handteknir grunaðir um að beita börn kynferðislegu ofbeldi og taka það upp á myndband.

Lagt var hald á myndir og myndskeið sem fundust í kjallara hjá 27 ára gömlum manni. Rannsakendur hafa borið kennsl á að minnsta kosti þrjú fórnarlömb – þau eru fimm ára, 10 ára og 12 ára gömul.

Mikill þrýstingur er á lögregluyfirvöld í Þýskalandi að uppræta slíka barnaníðsstarfsemi, bæði frá almenningi og stjórnvöldum sem hafa aukið fjármagn til lögregluyfirvalda í þeim tilgangi. Áður fyrr var það einungis minniháttar afbrot að deila barnaklámi en lögunum hefur verið breytt og nú er það flokkað sem glæpur.

mbl.is