Joseph DeAngelo játaði á sig 13 morð

DeAngelo við réttarhöldin í gær.
DeAngelo við réttarhöldin í gær. AFP

Joseph DeAngelo, betur þekktur sem „Golden state-morðinginn“ hefur játað sig sekan um 13 morð í sátt við saksóknara í Bandaríkjunum, gegn því að hann hljóti ekki dauðarefsingu fyrir dómi. 

DeAngelo var lögregluþjónn í Kaliforníu þegar hann framdi glæpi sína á 8. og 9. áratug síðustu aldar, en hann er nú 74 ára gamall. Hann játaði sig einnig sekan um fjölmörg kynferðisbrot. 

Réttarhöldin yfir DeAngelo fóru fram í stórum hátíðarsal í háskóla í Sacramento í gær, en fjölskyldum fórnalamba hans var þannig gert kleift að fylgjast með framgangi réttarhaldanna. Fram kemur á BBC að DeAngelo verði að öllum líkindum dæmdur í lífstíðarfangelsi í ágúst þegar réttarhöldunum lýkur. 

Lögregla hafði fylgst með DeAngelo um hríð og notaði lífsýni sem fannst á vettvangi gæpa hans áratugum áður, til þess að teikna upp ættartré DeAngelo sem náði aftur á 19. öld. Hann var handtekinn í apríl 2018. 

Við réttarhöldin í gær báru DeAngelo og lögmenn hans andlitsgrímu úr plasti til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann var fluttur í dómsal í hjólastól og studdi sig við staf. Saksóknarar sögðu hann hafa framið glæpi sína fyrir 34 til 45 árum og sögðu landfræðilegt svæði þeirra „yfirþyrmandi“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert