Ný veira hafi burði til að verða að heimsfaraldri

Nýja veiran er sögð hafa burði til þess að verða …
Nýja veiran er sögð hafa burði til þess að verða að heimsfaraldri og mæla vísindamenn með því að gripið verði til aðgerða gegn útbreiðslu í svínum þegar í stað. AFP

Vísindamenn í Kína hafa uppgötvað nýja tegund eða nýtt afbrigði af veiru, sem skyld er svínaflensu. Vísindamennirnir telja hana hafa burði til þess að verða að heimsfaraldri. Veiran fannst í svínum þar sem hún getur lifað góðu lífi en smit getur borist úr þeim í mannfólk.

Vísindamenn eru sagðir áhyggjufullir af því að veiran geti stökkbreyst enn frekar og á þann hátt að hún eigi auðvelt með að smitast milli manna, líkt og kórónuveiran sem heimsbyggðin hefur glímt við síðustu mánuði. BBC greinir frá.

Þrátt fyrir að þetta nýja veiruafbrigði sé ekki aðkallandi vandamál eins og er þarf að fylgjast grannt með stöðu mála enda beri hún öll „kennimerki“ veiru sem geti smitast auðveldlega á milli manna. Talið er að fáir eða engir séu ónæmir fyrir þessu afbrigði.

Leggja til aðgerðir til að takmarka útbreiðslu í svínum

Rannsókn vísindamannanna á veirunni birtist í tímariti bandarísku vísindaakademíunnar PNAS (Proceeding of the National Academy of Sciences of the United States of America) í gær, 29. júní. Þeir leggja til að gripið verði til aðgerða til að takmarka útbreiðslu veirunnar í svínum og að fylgst verði náið með þeim sem starfa í tengdum iðnaði, svo sem starfsmönnum svínabúa.

Afbrigði af svínaflensu (H1N1) varð að faraldri árið 2009 en sem betur fer var veiran ekki eins banvæn og óttast var í fyrstu. Eldra fólk hafði margt myndað ónæmi fyrir henni, líklega vegna þess að skyldar tegundir svínaflensu höfðu skotið upp kollinum árin áður.

Veiran sem gerði usla árið 2009 kallaðist A/H1N1pdm09. Víða um heim er bólusett fyrir henni. Nýja veiran er sögð lík henni eða skyld en þó nægilega ólík til að komast framhjá mótefni sem er til staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert