„Þau dóu fyrir augum mér“

Björgunarsveit á vettvangi við aðalsvið Hróarskelduhátíðarinnar 30. júní sumarið 2000. …
Björgunarsveit á vettvangi við aðalsvið Hróarskelduhátíðarinnar 30. júní sumarið 2000. Allar bjargir voru bannaðar þrátt fyrir að Eddie Vedder, söngvari Pearl Jam, öskraði ítrekað á gesti að færa sig aftar. Níu tónleikagestir létu líf sitt og hátt í 30 slösuðust í því sem síðan hefur verið kallað Hróarskelduslysið. Ljósmynd/Stian Haraldsen

„Ég fór fyrst á Hróarskelduhátíðina sumarið 1999 og varð hugfanginn um leið,“ segir Stian Haraldsen, fréttastjóri hjá norska ríkisútvarpinu NRK, í samtali við mbl.is þegar hann rifjar upp skelfilegan atburð á hátíðinni 30. júní árið 2000, þegar níu hátíðargestir krömdust til bana við aðalsvið hátíðarinnar á tónleikum bandarísku þungarokksveitarinnar Pearl Jam fyrir 20 árum upp á dag og hefur almennt verið umrætt sem Hróarskelduslysið eða „the Roskilde tragedy“.

„Þetta var svo mikil upplifun, ég fór beint og keypti miða á hátíðina árið 2000 eftir að ég kom heim 1999, þarna var ég nýbúinn með herskylduna, tuttugu ára gamall og var á leið í blaðamennskunám í Merkantil Institutt hér í Ósló, ég ætlaði mér að sigra heiminn með því að miðla upplýsingum, ég er svo heillaður af texta og boðskiptum,“ segir Haraldsen sem er frá Larvik og hefur marga fjöruna sopið á vettvangi norskra fjölmiðla, starfaði meðal annars á Dagbladet áður en hann gekk til liðs við hið háa ríkisútvarp, NRK.

Sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir

„Hátíðin 2000 byrjaði alveg eins og 1999. Þetta risastóra hátíðarsvæði, tónleikar heimsþekktra listamanna frá hádegi til miðnættis og stemmningin maður, ímyndaðu þér,“ rifjar Haraldsen upp. „Ég man svo vel eftir hátíðinni 2000,“ segir fréttastjórinn dreyminn, „við keyptum okkur fánastangir svo við gætum flaggað á tjaldstæðinu okkar og ég man hve við vinahópurinn hlökkuðum til fimmtudagsins og fyrstu tónleikanna. Ég gleymi því aldrei að þennan dag sá ég Madrugada, Bush og Iron Maiden og haug af öðrum hljómsveitum,“ segir Haraldsen.

Stian Haraldsen, fréttastjóri hjá norska ríkisútvarpinu NRK og fyrrverandi hermaður, …
Stian Haraldsen, fréttastjóri hjá norska ríkisútvarpinu NRK og fyrrverandi hermaður, féll í stafi á Hróarskeldu sumarið 1999. Hátíðin árið 2000 varð honum öllu þyngri. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir föstudaginn 30. júní þó hafa verið helsta tilhlökkunarefnið. „Mig grunaði að sá dagur yrði enn betri en fimmtudagurinn. Á dagskrá voru Kent, Pearl Jam og The Cure. Kent var rosaleg upplifun, Pearl Jam var það helvíti sem það varð og auðvitað varð ekkert af tónleikum The Cure,“ segir Haraldsen þegar hann rifjar upp daginn sem hann getur ómögulega gleymt.

„Meðal þess sem maður svona ómeðvitað beið eftir var að Eddie Vedder, söngvari Pearl Jam, þakkaði fyrir sig og sveitina og segði „Thank you Copenhagen!“ og svo hitti maður hann og þá félaga kannski í teiti í aðaltjaldinu.

„Færið ykkur aftar!“

Það gerðist aldrei,“ segir Haraldsen alvörugefinn. „Það næsta sem ég man var að Vedder öskraði í hljóðnemann „Færið ykkur aftar, færið ykkur aftar! Þrjú skref aftur á bak, takið þrjú skref aftur á bak!“ en það var bara of seint, ég gleymi því aldrei þegar hann stóð á sviðinu, reif í hár sitt og svo tóku tárin að streyma. Björgunarfólkið kom þá hlaupandi beint inn á mosh-pit-svæðið [þar sem harðkjarnaaðdáendur þungarokksveita halda sig á tónleikum] en það var bara of seint, þau voru dáin, þau dóu fyrir augum mér,“ segir fréttastjórinn og auðheyrt er að honum er ekki létt að líta til baka til 30. júní árið 2000.

„Þetta var ömurleg upplifun en engu að síður þyrsti mig í að fara til baka árið eftir. Vinahópurinn minn fór eiginlega allur til baka þá. Það var sérstök upplifun en við upplifðum mikið öryggi, aðstandendur hátíðarinnar settu milljónir í öryggismál, þarna [árið 2001] var líka frábært veður og mögnuð stemmning. The Cure kom til dæmis aftur og átti frábæra tónleika,“ segir Haraldsen sem er mikill Cure-aðdáandi.

Appelsínugula stemmningin

„Svo ætlaði ég að fara aftur núna í ár, núna er ég auðvitað fertugur og þetta er kannski aðeins öðruvísi,“ segir Haraldsen og hlær í fyrsta sinn í viðtalinu. „Við aðdáendur hátíðarinnar tölum alltaf um appelsínugulu stemmninguna [the orange feeling] og ég er með mynd af aðaltjaldinu, því appelsínugula, húðflúraða á handlegginn. Svo kom auðvitað kórónuveiran svo ekkert varð úr hátíðinni í ár. En ég bíð þá bara annað ár,“ segir Haraldsen, „ég eignaðist líka börn, maður er ekki beint alltaf í fríi, en ég hef saknað þeirrar tilfinningar svo mikið að vera á Hróarskeldu, þetta er svo frábær hátíð, en ég get aldrei gleymt því sem ég horfði þar á sumarið 2000,“ klykkir Stian Haraldsen út, fréttastjóri NRK sem varð vitni að hörmulegum atburði á Hróarskelduhátíðinni 30. júní sumarið 2000.

Hróarskelduhátíðin er ein stærsta og vinsælasta tónlistarhátíð Evrópu og dregur …
Hróarskelduhátíðin er ein stærsta og vinsælasta tónlistarhátíð Evrópu og dregur að jafnaði til sín tugi þúsunda gesta ár hvert. Ljósmynd/Wikipedia.org

Fólkið sem lést á hátíðinni fyrir 20 árum var frá Þýskalandi, Hollandi, Danmörku og Svíþjóð. Auk hinna látnu slösuðust tæplega 30 manns, þar af þrír alvarlega. Niðurstaða lögreglurannsóknar var að það sem gerðist á Hróarskelduhátíðinni fyrir 20 árum hafi einfaldlega verið slys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert