20% fleiri eldar í Amazon en á síðasta ári

Afleiðingar skógareldanna eru dapurlegar.
Afleiðingar skógareldanna eru dapurlegar. AFP

Eldar í Amazon-regnskóginum í Brasilíu í júní hafa ekki verið skæðari í 13 ár. Eldarnir voru um 20% umfangsmeiri í júní þessa árs en í fyrra. 

Samkvæmt BBC gefur vöxturinn í júní hættulega mynd fyrir sumarið. Þurrkatíðin er nýhafin á svæðinu og yfirleitt færast eldarnir í aukana eftir því sem líður á sumarið. 

Umhverfissinnar hafa sagt að kórónuveirufaraldurinn í Brasilíu hafi gert ástandið enn verra. Eftirlit með íkveikjum er að þeirra mati minna vegna álags á stjórnvöld, en skógareldar í landinu eru oft viljaverk ólöglegra skógarhöggsmanna og bænda sem vilja ryðja skóga á skjótan hátt. 

Samkvæmt gögnum frá brasilískum stjórnvöldum voru skógareldar 2.248 talsins í júní, samanborið við 1.880 elda á síðasta ári. Eldarnir voru umfangsmestir í ágúst á síðasta ári, 30.901 talsins sem er þrisvar sinnum meira en í ágúst 2018. 

mbl.is