Kórónuveiran: Breytt heimsmynd á hálfu ári

Kórónuveiran braust út í kínversku borginni Wuhan í lok síðasta …
Kórónuveiran braust út í kínversku borginni Wuhan í lok síðasta árs. Síðan þá er allt breytt. AFP

Á gamlársdag greindu kínversk yfirvöld frá dularfullum lungnasjúkdómi sem virtist vera að ná útbreiðslu í borginni Wuhan. Sex mánuðum síðar blasir breytt heimsmynd við jarðarbúum. COVID-19, sjúkdómurinn sem kórónuveiran veldur, hefur breytt heiminum. 

„Sýk­ing­in fannst fyrst í Wu­h­an í des­em­ber og er or­saka­vald­ur henn­ar kór­ónuveira. Um er að ræða ein­hvers kon­ar lungna­bólgufar­ald­ur en lítið er vitað um hann og eru eng­in lyf til við sýk­ing­unni,“ segir í frétt mbl.is frá 20. janúar. 

„Við eigum raunhæfa möguleika á að stöðva þennan faraldur,“ sagði Tedros Adhanom Ghebr­eyes­us, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), í byrjun janúar. 

Milljón tilfelli kórónuveirunnar greindust fyrstu þrjá mánuði ársins. Síðustu átta daga hafa milljón tilfelli verið staðfest. Ljóst er að faraldurinn er enn í gríðarlegum vexti á heimsvísu. „Áhrifa hans mun gæta næstu áratugi,“ sagði Tedros 22. júní.

BBC hefur nú tekið saman áhugavert myndskeið þar sem farið er yfir helstu atburði kórónuveirufaraldursins sem hefur nú sett svip sinn á heiminn í hálft ár. 

31. desember 2019:

  • Kínverskir fjölmiðlar greindu frá lungasýkingu sem breiðst hafi út í borginni Wuhan. Sýking sem síðar átti eftir að kaffæra heiminn. 
Sýnatökupinnar, samkomubann, sóttkví, andlitsgrímur og hlífðarfatnaður. Þetta er aðeins brotabrot …
Sýnatökupinnar, samkomubann, sóttkví, andlitsgrímur og hlífðarfatnaður. Þetta er aðeins brotabrot af þeim orðaforða sem einkennt hefur fjölmiðlaumfjöllun ársins. AFP

Janúar 2020: Veiran breiðist út utan Wuhan

  • 11. janúar: Greint er frá fyrsta dauðsfallinu af völdum veirunnar í kínverskum fjölmiðlum. 
  • 14. janúar: WHO staðfestir að um nýja kórónuveiru sé að ræða. 
  • 20. janúar: Fyrsta smit milli manna greinist í Kína. 
  • 21. janúar: Fyrstu tilfellin utan Kína eru staðfest, alls fjögur talsins. 
  • 23. janúar: Útgöngubann tekur gildi í Wuhan og nærliggjandi borgum. 
  • 30. janúar: Staðfest dauðsföll af völdum veirunnar orðin 170 í Kína. WHO lýsir yfir neyðarástandi. 

Febrúar 2020: Veiran nær fótfestu utan Kína

  • 2. febrúar: Fyrsta dauðsfallið staðfest á Filippseyjum sem er jafnframt fyrsta dauðsfallið utan Kína. 
  • 10. febrúar: Þúsund dauðsföll staðfest í Kína. 
  • 11. febrúar: WHO gefur veirunni heiti: COVID-19. 
  • 14. febrúar: Fyrsta dauðsfallið utan Asíu staðfest: Í Frakklandi. 
  • 26. febrúar: Donald Trump Bandaríkjaforseti fullyrðir að ráðstafanir yfirvalda hafi tryggt öryggi Bandaríkjamanna gagnvart veirunni. 
  • 28. febrúar: Fyrsta smitið greinist á Íslandi.
  • 29. febrúar: Fyrsta dauðsfallið í Bandaríkjunum. 

Mars 2020: Evrópa verður þungamiðja faraldursins

  • 14. mars: Útgöngubann tekur gildi í Frakklandi og á Spáni. 
  • 16. mars: Fyrsta dauðsfallið í Brasilíu. 
  • 18. mars: Ekkert innanlandssmit greinist í Kína, í fyrsta sinn frá því í janúar. 
  • 25. mars: Ólympíuleikunum í Tókýó er frestað, líkt og fjölmörgum stórviðburðum. 
Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfólki það sem af er þessu …
Mikið hefur mætt á heilbrigðisstarfólki það sem af er þessu ári. í fjölmörgum löndum, til að mynda Belgíu, hefur heilbrigðisstarfsfólk krafist betri kjara og vinnuaðstæðna í kórónuveirufaraldrinum. AFP

Apríl 2020: Dauðsföllum í heiminum fjölgar hratt

  • 2. — 6. apríl: Fleiri en 10 þúsund dauðsföll staðfest á Spáni og í Bandaríkjunum. 
  • 6. apríl: Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lagður inn á gjörgæslu með COVID-19. 
  • 7. — 11. apríl: Fleiri en 10 þúsund dauðsföll staðfest á Bretlandi og í Frakklandi. 

Maí 2020: Suður-Ameríka verður þungamiðja faraldursins

  • 8. — 9. maí: 30 þúsund dauðsföll staðfest á Ítalíu og 10 þúsund í Brasilíu.

Júní 2020: Faraldurinn er enn í vexti

  • 7. júní: 400 þúsund dauðsföll staðfest á heimsvísu. 
  • 21. — 22. júní: 50 þúsund dauðsföll staðfest í Brasilíu og 120 þúsund í Bandaríkjunum. 
  • 30. júní: Staðfest smit á heimsvísu um 10,5 milljónir og yfir 500 þúsund dauðsföll. 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert