„Grímur eru algjörlega málið“

„Grímur eru algjörlega málið,“ segir Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem telur …
„Grímur eru algjörlega málið,“ segir Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem telur grímuskyldu samt sem áður ekki nauðsynlega í baráttunni gegn kórónuveirunni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur ítrekað hafnað því að bera andlitsgrímu á almannafæri, virðist hafa snúist hugur og dásamar nú grímunotkun í baráttunni gegn kórónuveirunni. 

„Grímur eru algjörlega málið,“ sagði Trump í samtali við Fox-sjónvarpsstöðina og bætti við að honum finnst hann líkjast grímuklæddu goðsögninni úr villta vestrinu, The Lone Ranger, þegar hann ber grímu. 

Trump líkir sjálfum sér við The Lone Ranger þegar hann …
Trump líkir sjálfum sér við The Lone Ranger þegar hann ber andlitsgrímu. Gríma kappans úr villta vestrinu fer hins vegar yfir augu en gríman sem notuð hefur verið í baráttunni gegn kórónuveirunni hylur nef og munn. Ljósmynd/Wikipedia.org

Trump telur samt sem áður óþarfi að skylda borgara til að bera grímur til að ná tökum á útbreiðslu faraldursins. Aldrei hafa fleiri tilfelli verið staðfest í Bandaríkjunum og síðasta sólarhring, eða um 52 þúsund talsins. 

Alls hafa 2,7 milljónir tilfella verið staðfest í Bandaríkjunum og 128 þúsund hafa látið lífið frá því í lok febrúar. 

Aðspurður hvenær hann geti hugsað sér að nota grímu svaraði forsetinn: „Ef ég er í mikilli mannmergð hika ég ekki við að nota grímu.“ Trump benti jafnframt á að fólk hafi séð hann með grímu áður. 

Trump var jafnframt spurður í viðtalinu hvort hann tryði því enn að kórónuveiran myndi hverfa einn daginn. „Ég geri það, að sjálfsögðu. Á einhverjum tímapunkti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert