Metfjöldi kórónuveirusmita í Tókýó

Hitinn er mældur hjá þeim sem vilja heimsækja Disneyland í …
Hitinn er mældur hjá þeim sem vilja heimsækja Disneyland í Tokyo. AFP

Yfirvöld í Tókýó, höfuðborg Japans, tilkynntu um 107 ný kórónuveirusmit í borginni í dag. Er það jafnframt hæsti fjöldi nýrra smita í ríflega tvo mánuði, en að því er fram kemur í tilkynningu frá yfirvöldum er ekki talin þörf á að herða takmarkanir á nýjan leik. 

Í Tókýó búa rétt um 14 milljónir manna, en eftir að neyðarástandi var aflýst 25. maí sl. var stefnan sett á að halda nýjum daglegum smitum undir 20 á dag. Í síðustu viku voru dagleg smit nær alla daga ríflega 50 talsins. 

Að því er haft er eftir borgarstjóra Tókýó, Yuriko Koike, eru 70% nýju tilfellanna á meðal fólks á þrítugs- og fertugsaldri. „Við munum halda áfram að fylgjast með stöðunni, og vinna að því að tryggja að veiran nái sér ekki á strik að nýju. Sömuleiðis verður haldið áfram að vinna að efnahagslegum aðgerðum,“ sagði borgarstjórinn. 

mbl.is