Norska lögreglan gripin í landhelgi

Hliðið er opið og ljónið sefur. Vefmyndavél norsku umferðarstofunnar varpar …
Hliðið er opið og ljónið sefur. Vefmyndavél norsku umferðarstofunnar varpar ljósi á stíft eftirlit við landamæri Noregs og Svíþjóðar í Nordland þar sem lögreglan hvarf á brott á ellefta tímanum á laugardagskvöld og mætti á ný í hádeginu daginn eftir. Glöggur sumarbústaðaeigandi sá fjölda bíla aka yfir landamærin á meðan, en engum er nú heimilt að koma frá Svíþjóð án þess að hefja dvölina í tíu daga sóttkví. Umferðarstofa eyddi myndefninu. Skjáskot/Vefmyndavél norsku umferðarstofunnar/Statens vegvesen

Umferðarstofa Noregs, Statens vegvesen, var ekki sein á sér að eyða myndefni úr sinni eigin vefmyndavél sem þá hafði varpað því um gervallt lýðnetið að lögreglumenn, sem með réttu hefðu átt að gæta umferðar um landamærin við nágrannaríkið Svíþjóð á Bjørnfjell í Nordland-fylki allan sólarhringinn og halda uppi stífu eftirliti við landið sem langverst hefur orðið úti allra Norðurlandanna í kórónuveirusmiti, hurfu af vettvangi klukkan 22:45 að kvöldi laugardagsins 27. júní og sáust ekki meir fyrr en í hádeginu daginn eftir.

Norskur sumarbústaðareigandi skammt frá landamærastöðinni við Bjørnfjell fylgdist með upptöku vefmyndavélarinnar og greindi norska ríkisútvarpinu NRK frá því að eftir að lögreglan fór hafi fjöldi bifreiða ekið yfir landamærin en í ljósi heimsfaraldursins er engum heimilt að ferðast frá Svíþjóð til Noregs um þessar mundir nema hefja dvöl sína Noregsmegin í tíu daga sóttkví.

Tæplega 70.000 hafa nú greinst með veiruna í Svíþjóð og hefur hún kostað þar 5.370 mannslíf þegar þetta er skrifað. Í kjölfarið, innan Norðurlandanna, sigla Danir með tæplega 13.000 smit og 606 dauðsföll.

Óskar nafnleyndar

Sumarbústaðareigandinn segir öllum með netaðgang í lófa lagið að fylgjast með efni vefmyndavéla umferðarstofunnar og þar með sjá hvenær aka megi óhindrað yfir landamærin.

„Þeir segjast fylgjast með landamærunum en ég sé það með eigin augum að þeir mæta milli níu og tíu á morgnana og fara um svipað leyti á kvöldin,“ segir viðmælandinn sem óskar nafnleyndar.

Landamærin við Teveldal, myndin til hægri klukkan 19:26 og sú …
Landamærin við Teveldal, myndin til hægri klukkan 19:26 og sú vinstri klukkustundu síðar á laugardaginn. Laganna verðir horfnir á braut. Skjáskot/Vefmyndavél norsku umferðarstofunnar/Statens vegvesen

Fréttamenn NRK hafa sjálfir skoðað efni vefmyndavélanna, sem nú er ekki lengur aðgengilegt, og staðfesta að viðmælandinn nafnlausi hafi lög að mæla.

„Ég hef nú aldrei hugsað um þetta á þessum nótum, en sé það núna að auðvitað getur fólk nýtt vefmyndavélarnar í þessum tilgangi,“ segir Jan Lind, rekstrar- og viðhaldsstjóri umferðarstofu, við NRK eftir að athygli hans var vakin á málinu. Útsending efnis frá myndavélunum hefur nú verið stöðvuð.

Berum sameiginlega ábyrgð

Heidi Kløkstad, lögreglustjóri í Nordland, segir myndavélarnar hafa forvarnaáhrif þótt þær sýni ef til vill líka hvenær lögreglan er ekki við landamærin. „Öll berum við sameiginlega ábyrgð á að fylgja sóttvarnareglunum,“ segir lögreglustjóri.

Hún segir lögregluna í Nordland hafa meinað 16 manns inngöngu í Noreg síðan ósköpin hófust. Þar af hafi helmingnum, eða átta, reyndar einmitt verið vísað frá við Bjørnfjell. „Stundum erum við með sýnilegt eftirlit og stundum ekki,“ segir fógetinn og neitar enn fremur að tjá sig um hvort lögreglan hafi enn fremur sjálf hvatt til frekari landamærabrota með fjarveru sinni. Tollstjóra sé að veita upplýsingar um hvort fleiri eða færri fari um landamærin.

Christian Fuglum, deildarstjóri tolleftirlits í Mið-Noregi, segir hins vegar að ekki sé í verkahring tollsins að halda uppi störfum lögreglunnar en embættin skiptist þó á upplýsingum hvað landamæravörslu snerti.

Lokaorðið í landamæramálinu á Ingunn Tove Jakola, sviðsstjóri landfræðilegra gagna (n. geodata) norsku umferðarstofunnar. „Við slökkvum einfaldlega á sumum myndavélum vegna persónuverndarsjónarmiða. Tilgangur þessara myndavéla er ekki að að pupullinn sé að fylgjast með því hver sé eða sé ekki við landamærin. Þessar vélar eru aðallega til þess að fólk geti fylgst með veðri og færð,“ upplýsir Jakola norska ríkisútvarpið NRK.

NRK

NRKII (ekkert eftirlit með ferðamönnum)

NRKIII (lögregla í Finnmörk eykur eftirlit)

mbl.is