Óútskýranlegur dauði fleiri hundruð fíla

Tveir fílar sem hafa drepist í Botswana.
Tveir fílar sem hafa drepist í Botswana. Ljósmynd/National Park Rescue

Fleiri hundruð fílar hafa drepist í Botswana á síðustu tveimur mánuðum af óútskýranlegum ástæðum. 

Dr Niall McCann, sérfræðingur hjá bresku góðgerðarsamtökunum National Park Rescue, segir í samtali við BBC að samstarfsfélagar hans í Botswana hafi orðið varir við meira en 350 fílshræ í Okavango-óseyrunum frá því í byrjun maí. 

Enginn veit hvers vegna eða úr hverju dýrin hafa drepist. Um þriðjungur allra fíla í heiminum býr í Botswana í suðurhluta Afríku. 

McCann segir að náttúruverndarsinnar hafi fyrst gert ríkisstjórn Botswana viðvart í maí eftir eftirlitsflug yfir óseyrarnar. 

„Þeir sáu 169 í þriggja klukkustunda flugferð,“ segir McCann. „Um mánuði síðar eftir frekari athugun voru hræin orðin fleiri en 350. Þetta eru algjörlega fordæmalausar tölur yfir fíla sem drepast í tengslum við ákveðinn atburð, annað en mikla þurrka.“

Ríkisstjórn Botswana útilokaði strax í maí að dauði fílanna tengdist veiðiþjófnaði. Bæði vegna þess að skögultennur fílanna voru ósnertar og vegna þess að aðeins fílar virðast vera að drepast. „Ef þetta væri blásýra frá veiðiþjófum væru fleiri dýr að drepast líka,“ segir McCann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert