Segir af sér vegna brota á útgöngubanni

David Clark kallaði sjálf­an sig „hálf­vita“ í apríl eft­ir að …
David Clark kallaði sjálf­an sig „hálf­vita“ í apríl eft­ir að hann braut regl­ur um út­göngu­bann í land­inu þegar hann keyrði með fjöl­skyldu sína á strönd­ina síðustu helg­ina í mars. Hann hefur nú sagt af sér sem heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Wikipedia.org

Heil­brigðisráðherra Nýja-Sjá­lands hefur sagt af sér embætti eftir að hafa í tvígang brotið reglur um útgöngubann í landinu sem voru í gildi vegna kórónuveirunnar. 

David Clark kallaði sjálf­an sig „hálf­vita“ í apríl eft­ir að hann braut regl­ur um út­göngu­bann í land­inu þegar hann keyrði með fjöl­skyldu sína á strönd­ina síðustu helg­ina í mars. Hann viður­kenndi að akst­ur­inn væri hreint og klárt brot á út­göngu­banni sem sett var á í land­inu 25. mars.

Hann bauðst til að segja af sér í apríl þegar hann viðurkenndi brot sitt fyrst en Jac­inda Ardern, for­sæt­is­ráðherra lands­ins, hafnaði af­sögn hans vegna stöðunn­ar í tengsl­um við kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn.

Clark tilkynnti afsögn sína á blaðamannafundi í dag og er ákvörðunin alfarið tekin af honum sjálfum og hefur Ardern samþykkt afsögnina. Clark segir að seta hans í ríkisstjórn hafi haft truflandi áhrif á störf hennar. Chris Hipkins menntamálaráðherra mun sinna störfum heilbrigðisráðherra þar til þingkosningar fara fram í september. 

Stjórnvöldum á Nýja-Sjálandi hefur verið hrósað fyrir að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar af krafti. 1.528 tilfelli hafa greinst í landinu og 22 hafa látið lífið. Öllum samkomutakmörkunum var aflétt í síðasta mánuði og fullyrt að landið væri laust við kórónuveiruna. Tvö smit greindust hins vegar um miðjan júní. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert