Braust vopnaður inn á lóð Trudeau

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, var ekki í húsinu þegar maðurinn …
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, var ekki í húsinu þegar maðurinn braust inn á lóðina. AFP

46 ára gamall karlmaður og varaliðsmaður í kanadíska hernum á yfir höfði sér ákæru í 22 liðum eftir að hafa brotist inn á lóð við aðsetur Justins Trudeau, forsætisráðherra Kanada, í Rideau Hall í Ottawa á fimmtudag.

Maðurinn keyrði pallbíl inn á landareignina og gekk um svæðið í þrettán mínútur áður en hann var handtekinn. Maðurinn var vopnaður og að sögn Mike Duheme, talsmanns alríkislögreglunnar í Kanda, var fjöldi skotvopna til viðbótar í bíl mannsins.  Rideau Hall er heimili yfirlandstjórans í Kanada en Trudeau dvelur þar ásamt konu og börnum þar sem framkvæmdir eru í gangi við opinbert aðsetur hans í borginni. 

„Ég vil leggja áherslu á að forsætisráðherrann og fjölskylda hans eða yfirlandstjórinn voru aldrei í neinni hættu þar sem þau voru ekki í húsinu á þessum tíma,“ sagði Duheme. Hann gaf engar skýringar á því hvað manninum gekk til, en sagði að hann væri talinn hafa verið einn að verki.

Maðurinn, Corey Hurren, kom fyrir dómara í morgun en hann verður í haldi lögreglu þar til mál hans verður tekið fyrir 17. júlí.

mbl.is