Grímuskylda í Texas — dagsgamalt met slegið

Grímuskyldu hefur verið komið á í Texas í Bandaríkjunum og …
Grímuskyldu hefur verið komið á í Texas í Bandaríkjunum og er 21. ríkið sem tekur upp slíka skyldu. AFP

Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, hefur fyrirskipað grímuskyldu á almannafæri í ríkinu. Kórónuveiran hefur breiðst hratt út í Texas síðustu daga, hraðar en í nokkru öðru ríki Bandaríkjanna. Met var slegið annan daginn í röð í Bandaríkjunum síðasta sólarhring þegar yfir 51 þúsund tilfelli voru staðfest í landinu, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskóla, og hafa aldrei verið fleiri á einum sólarhring. 

Grímuskyldan nær til sýslna í Texas þar sem fleiri en 20 tilfelli hafa greinst og á því við um flestar 254 sýslur ríkisins. Á miðvikudag greindust átta þúsund smit í ríkinu en fyrir tveimur vikum voru dagleg smit um 2.400. 

„Að bera grímu mun hjálpa okkur að halda Texas gangandi,“ sagði Abbot þegar hann tilkynnti grímuskylduna. Fari íbúa ekki eftir henni mega þeir búast við allt að 250 dollara sekt, eða sem nemur tæpum 35 þúsund krónum. „En svo það sé á hreinu, enginn mun sæta fangelsi fyrir brot á þessum forvarnaraðgerðum,“ bætti ríkisstjórinn við. Texas er 21. ríkið sem tekur upp grímuskyldu. 

Bandaríkjamenn fagnar þjóðhátíðardegi sínum um helgina en hátíðahöldum hefur víða verið frestað, m.a. með því að loka ströndum og hætta við flugeldasýningar. 

Fyrsta tilfelli kórónuveirusmits greindist í Bandaríkjunum í lok janúar en í Texas í mars. Alls hafa yfir 2,7 milljónir greinst með veiruna í Bandaríkjunum og 128 þúsund látið lífið. 

Ólíkt Donald Trump Bandaríkjaforseta, segir Abbot það ljóst að kórónuveiran sé ekki á förum. „Í raun er ástandið að versna.“ Trump sagði í viðtali í gær að hann er enn þeirrar trúar að veiran muni hverfa. Trump virðist hins vegar orðinn hlynntur grímunotkun, sem hann hefur hingað til haft takmarkaða trú á.  

mbl.is