Redskins-nafnið á útleið?

Forsvarsmenn Washington Redskins hafa gefið út að þeir muni ráðast …
Forsvarsmenn Washington Redskins hafa gefið út að þeir muni ráðast í umfangsmikla yfirferð á því hvort breyta á nafni félagsins. AFP

Bandaríska fótboltaliðið Washington Redskins hefur gefið út að nafn félagsins verði endurskoðað. Ákvörðunin kemur í kjölfar háværra krafna þess efnis en nýjasta vendingin í deilunni er yfirlýsing frá póstþjónustunni FedEx, stærsta styrktaraðila liðsins, þar sem farið er fram á að nafninu sé breytt en áður höfðu 87 fjárfestar farið fram á að fyrirtækið, og aðrir styrktaraðilar á borð við Nike og PepsiCo, slitu samstarfi við Washington Redskins.

Orðið redskin (ísl. rauðskinni) vísar til indíána, frumbyggja Norður-Ameríku. Ýmsir líta svo á að orðið sé niðrandi í garð frumbyggja Bandaríkjanna. Þannig segir orðabók Oxford-háskóla um hugtakið að það sé „mjög niðrandi orð yfir frumbyggja Norður-Ameríku.“

Nafngiftin móðgandi

Forsvarsmenn félagsins hafa þó alla tíð haldið því fram að nafnið og merki félagsins, sem inniheldur staðalímynd flestra af amerískum indíána, sé „virðingarvottur við afrek og dyggðir frumbyggja Norður-Ameríku“. Samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var við Háskólann í Berkley í Bandaríkjunum í ár töldu 49% frumbyggja Ameríku nafngiftina vera móðgandi, en hlutfallið var hærra, 67%, meðal þeirra sem sögðust reglulega stunda helgiathafnir frumbyggja.

Málið hefur komist aftur í deigluna síðustu vikur eftir að umfangsmikil mótmæli gegn kynþáttafordómum brutust út í Bandaríkjunum í kjölfar þess að lögreglumaður drap George Floyd. Nú virðist sem hvatning helsta styrktaraðila félagsins hafi nægt til að hreyfa við forsvarsmönnum þess, sem skoða nú önnur nöfn.

Meðal þeirra mögulegu nafna sem velt hefur verið upp eru Washington Warriors, Washington Hogs og Washington RedHawks, auk þess sem einhverjir hafa lagt til hið stílhreina Washington FC að fordæmi evrópskra knattspyrnuliða.

mbl.is