Hárgreiðslustofur og barir opna á Englandi

Margir nýttu tækifærið þegar barir voru opnaðir í fyrsta sinn …
Margir nýttu tækifærið þegar barir voru opnaðir í fyrsta sinn í þrjá mánuði á Englandi í gær. Þessi mynd er tekin í Newcastle. AFP

Hárgreiðslustofur, veitingastaðir, kvikmyndahús og barir voru opnuð að nýju á Englandi í dag. Þá er fólki heimilt að heimsækja heimili annars fólks að nýju og jafnvel gista. Kirkjur og önnur trúarhof mega sömuleiðis opna, en að hámarki 30 mega sækja messur samtímis.

Um er að ræða stærsta einstaka skref í tilslökunum á samkomubanni vegna kórónuveirunnar í Bretlandi. Nigel Farage, formaður Brexit-flokksins, var ekki lengi að grípa gæsina en hann var mættur á bar á hádegi í dag og birti mynd af sér á Twitter af því tilefni.

Tilslakanirnar ná þó ekki til allra Englendinga, en síðasta þriðjudag var tveggja vikna útgöngubann sett á í borginni Leicester og skólum og verslunum, sem ekki selja nauðsynjar, lokað. Á fimmta hundruð kórónuveirusmita greindust í liðinni viku í Leicester, eða um 140 á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar greindust 10 smit á hverja 100.000 íbúa á landsvísu í liðinni viku.

Í grein sem Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, ritaði í Telegraph í gær hvetur hún landsmenn til að njóta helgarinnar en varar fólk við að ganga of langt og stofna þeim árangri sem náðst hefur í hættu.

Sir Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir í viðtali við Times Radio að stórt skref hafi verið stigið í dag. Hann segir skilaboð ríkisstjórnarinnar þó hafa verið misvísandi og að hún sé „úti um allt“ í ráðleggingum sínum. Bæði sé fólk hvatt til að grípa tækifærið og fá sér drykk, en eins að sýna ábyrgð og varkárni.  „Skilaboðin mín til ríkisstjórnarinnar eru að þetta sé mikil prófraun. Við styðjum ykkur í tilslökununum en þið þurfið að vera meðvituð um áhættuna,“ sagði hann. 

mbl.is