Hefur enga ástæðu til að óttast veiruna

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, neitaði lengi að ganga með grímu …
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, neitaði lengi að ganga með grímu á almannafæri þangað til hann var skikkaður til þess af dómara. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, samþykkti í gær lög sem gera það að skyldu að nota andlitsgrímu á almannafæri meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur þar í landi. Hann synjaði hins vegar að skrifa undir að setja á skyldu til að vera með grímu í kirkjum, skólum og verslunum.

Bolsonaro synjaði einnig að skrifa undir lög þess efnis að andlitsgrímum yrði dreift til fátækra í landinu. Öldungaþing Brasilíu hefur 30 daga til að hnekkja synjun Bolsonaro. BBC greinir frá. 

„Í mínu tilfelli, með minn bakgrunn í íþróttum, hefði ég enga ástæðu til að óttast ef ég myndi smitast af veirunni. Ég myndi ekki finna neitt nema í mesta lagi smá flensu eða kvef,“ sagði forsetinn í ávarpi sem streymt var á samfélagsmiðlum.

62 þúsund látið lífið

Hann viðurkenndi ekki í ávarpinu hversu alvarleg staðan er í Brasilíu þrátt fyrir að landið sé í öðru sæti á lista yfir flest smit á heimsvísu og flest dauðsföll. Tæplega 1,5 milljónir manna hafa greinst smitaðar þar í landi og tæplega 62 þúsund manns hafa látið lífið.

Bolsonaro hefur legið undir ámæli frá því faraldurinn kom upp fyrst fyrir að gera lítið úr alvarleika hans, neita að ganga með grímu, hvetja fólk til að koma saman og ýja að tilvist einfaldra lausna eins og malaríulyfs. Þá hefur dómari í Brasilíu skikkað hann til að ganga með grímu á almannafæri.

Hann rak Luiz Henrique Mandetta, þáverandi heilbrigðisráðherra, úr ríkisstjórn um miðjan apríl vegna ósættis um viðbrögð stjórnvalda við útbreiðslu kórónuveirunnar. Arftaki Mandetta í embætti, Nel­son Teich, sagði starfi sínu lausu mánuði eftir að hann tók við því af sömu ástæðu – hann var ósammála nálgun forsetans.

mbl.is