Íbúar hjúkrunarheimilis taldir af eftir flóð

Úrkoma hefur aldrei mælst meiri á svæðinu.
Úrkoma hefur aldrei mælst meiri á svæðinu. AFP

Fjórtán íbúar hjúkrunarheimilis á Kyushu-eyju í Japan eru taldir hafa látið lífið þegar flæddi þar inn eftir „fordæmalausa“ úrkomu þar síðustu daga. Rúmlega 200 þúsund íbúar hafa verið beðnir að yfirgefa heimili sín vegna flóðahættu.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sendi 10 þúsund hermenn á vettvang til að aðstoða við björgunarstörf. Veðurspár gera ráð fyrir úrkomu að minnsta kosti næsta sólarhringinn. BBC greinir frá. 

Íbúar hjúkrunarheimilisins voru meðvitundarlausir og önduðu ekki þegar komið var að þeim en ekki er búið að úrskurða þá látna.

Samkvæmt gögnum frá veðurstofu Japan hefur úrkoma aldrei mælst svo mikil á svæðinu. Fulltrúi héraðsstjórnar Kumamoto, Toshiaki Mizukami, hvatt fólk til að yfirgefa heimili.

„Við höfum sagt fólki að yfirgefa svæðið eftir fordæmalausa úrkomu. Við hvetjum fólk eindregið til að fara eftir þeim fyrirmælum til að bjarga lífum sínum,“ sagði hann við fréttaveituna AFP.

Haruka Yamada, sem býr í Ashikita-hverfi í Kumamoto-héraði sagði: „Ég sá stór tré og hluta úr byggingum skolast í burtu og svo heyrði ég þau lenda á einhverju. Í loftinu er gas- og skolplykt.“

AFP
AFP
mbl.is