Óttast slæma hópsýkingu í félagslegu húsnæði

Fimm hundruð lögreglumenn manna hverja vakt sem sér um að …
Fimm hundruð lögreglumenn manna hverja vakt sem sér um að íbúarnir haldi sig innandyra. AFP

Yfirvöld í Melbourne-borg í Ástralíu hafa gert þúsundum íbúa nokkurra háhýsa í borginni að halda sig innandyra næstu fimm daga að minnsta kosti, til að stemma stigu við hópsýkingu sem kom upp í borginni. Fimm hundruð lögreglumenn sjá um að íbúarnir fylgi fyrirmælunum.

Um níu háhýsi, félagslegt húsnæði á vegum borgaryfirvalda, er að ræða þar sem um 3.000 manns búa. Að minnsta kosti 23 smit hafa greinst hjá íbúum síðustu daga. Útbreiðsla hefur aukist mjög í Viktoríu-ríki þar sem Melbourne er og í gær greindust þar 108 smit sem er næstmesti fjöldi sem greinst hefur á einum sólarhring. BBC greinir frá. 

„Það er mjög margir berskjaldaðir einstaklingar sem búa í þessum húsum. Sumir þeirra munu koma heim síðdegis, vitandi það að þeir mega ekki yfirgefa heimili sín næstu fimm daga,“ sagði Daniel Andrews, ríkisstjóri Viktoríuríkis, á blaðamannafundi í dag.

„Þriðja stigi“ samfélagstakmarkana hefur verið lýst yfir í 12 úthverfum Melbourne og það þýðir að fólk má aðeins fara út úr húsi til að fara í vinnu eða sækja skóla, stunda líkamsrækt, sækja sér heilbrigðisþjónustu eða versla.

Byggingarnar níu í Flemington-hverfi sæta aftur á móti mun harðari takmörkunum. Ástæðan er fjöldi smita sem greinst hefur meðal íbúa og að byggingarnar eru samtengdar með sameiginlegum lyftum og göngum. Allir íbúar verða skimaðir fyrir veirunni.

Annaliese van Diemen, yfirlæknir Viktoríuríkis, sagði að hópsýkingin sem kom upp í byggingunum hafi mögulega afhjúpað veikleika í kerfinu þar sem margir eru með undirliggjandi sjúkdóma.

„Það er forgangsverkefni að finna öll tilfelli sýkingar í þessum byggingum,“ sagði hún.

mbl.is