Rekin fyrir að grínast með manndráp

Sagt er að Elijah McClain hafi látist í ágúst í …
Sagt er að Elijah McClain hafi látist í ágúst í fyrra eftir að hafa verið tekinn hálstaki af lögreglu. Ljósmynd/Aurora Police Department

Þrír bandarískir lögregluþjónar voru reknir með litlum fyrirvara í lok vikunnar eftir að þeir birtu myndir af sér á samfélagsmiðlum, þar sem þeir skopstældu atburðarás þar sem 23 ára svartur Bandaríkjamaður hafði verið drepinn af lögreglu ári áður.

Lögreglumennirnir birtu myndir af sér við minnisvarða um hinn látna, Elijah McClain, í grennd við dánarstað hans í borginni Aurora í Colorado. Á einni myndinni sést einn lögregluþjónanna halda öðrum í hálstaki með bros á vör, en þekkt er að McClain umræddur lést í kjölfar þess að hann var tekinn hálstaki af lögreglu.

Í frétt CNN segir að lögregluþjónarnir hafi sent einhverjum samstarfsmönnum myndina og að þeir hafi sumir tekið henni léttilega og jafnvel brugðist við með hlátri. Þegar myndirnar birtust opinberlega á netinu brugðust æðstu yfirmenn lögreglunnar í Aurora hins vegar við með því að víkja viðkomandi lögreglumönnum úr starfi og sömuleiðis þeim sem höfðu fengið myndirnar sendar en ekki klagað.

Einn lögregluþjónanna á myndinni sagði í samtali við innri rannsóknarnefnd hjá lögreglunni að hann átti sig nú á að þetta hafi verið sérstaklega ósmekklegt. „Ég og tveir aðrir lögreglumenn vorum á svæðinu vegna útkalls, sáum minnisvarðann og ákváðum að taka ljósmynd fyrir framan hann í þeim eina tilgangi að reyna að hressa lögreglumann við, sem hafði verið viðriðinn mál Elijah McClain,“ sagði hann. Hann var sem sagt að senda myndina á lögregluþjón sem átti aðild að andláti McClain.

mbl.is