Heldur kosningabaráttunni ótrauður áfram

Frá kosningafundi Trump í Tulsa 20. júní.
Frá kosningafundi Trump í Tulsa 20. júní. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst halda kosningafund utandyra í New Hampshire um næstu helgi. Fyrri kosningafundur forsetans fór ekki sem skyldi, en dræm mæting var á fundinn. 

Kosningafundurinn verður haldinn 11. júlí. Gestum verður boðið upp á sótthreinsi og andlitsgrímur eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá kosningastjórn forsetans. 

Trump sækist eftir endurkjöri í forsetakosningum sem fram eiga að fara í nóvember. Hann hélt fyrsta kosningafund framboðsins 20. júní í Tulsa Oklahoma. 

Talsvert færri voru á fundinum en búist var við. Trump fullyrti fyrir fundinn að nærri milljón manns hefðu sóst eftir miðum á fundinn, en ekki voru nema 7.000 gestir í höllinni sem tekur alls 19.000 manns í sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert