„Önnur lönd mættu læra af Svíþjóð“

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. AFP

Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur gert sitt besta í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn í stöðu þar sem ekkert land hefur vitað almennilega hvernig á að bregðast við. Þetta segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), í viðtali við Svenska dagbladet. Engin ein „rétt“ lausn sé til í baráttunni við faraldurinn.

Ghebreyesus fylgist grannt með stöðu mála í Svíþjóð og þekkir ágætlega til, en hann tók hluta af framhaldsnámi sínu í faraldsfræði við Háskólann í Umeå á tíunda áratugnum. „Svíþjóð á sérstakan stað í hjarta mínu, þótt sænskan mín sé dálítið ryðguð,“ segir Ghebreyesus við blaðamann SvD sem er einn fárra blaðamanna sem hafa fengið að ferðast til Genfar, þar sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er til húsa, til að taka tal af Ghebreyesus.

Fólk naut veðurblíðunnar við Mälarhöjdsbadet í Stokkhólmi í síðustu viku …
Fólk naut veðurblíðunnar við Mälarhöjdsbadet í Stokkhólmi í síðustu viku enda náði hiti 30 gráðum. AFP

Ghebreyesus segist meðvitaður um að Svíþjóð hafi valið aðra leið í baráttunni við faraldurinn en önnur lönd, og til að mynda ekki sett á útgöngubann. 5.420 hafa látið lífið vegna veirunnar í landinu, og er landið í fimmta sæti Evrópuríkja yfir flest dauðsföll miðað við höfðatölu af völdum veirunnar. En nú bendir þróunin í rétta átt, að sögn forstjórans.

Um mánaðamótin skipaði ríkisstjórn Svíþjóðar svokallaða kórónuveirunefnd, en hennar hlutverk er að fara yfir störf stjórnvalda í veirufaraldrinum með það að markmiði að átta sig betur á hvernig áætlunin hefur gengið. Ghebreyesus segir það lofsvert framtak.

„Ríkisstjórn Svíþjóðar hefur gert nokkuð mjög mikilvægt með því að hefja rannsóknina. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin kann virkilega að meta það framtak og önnur lönd mættu læra af Svíþjóð,“ segir Ghebreyesus. 

Hefur litla þýðingu að 17% hafi myndað mótefni

Til viðtals er einnig Mike Ryan, sem fer fyrir neyðaráætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Mótefnamælingar í Stokkhólmi benda til þess að 17 prósent borgarbúa hafi myndað mótefni gegn veirunni. Spurður hvaða þýðingu það hafi segir Ryan að ekki megi líta á það sem vörn gegn veirunni. „Kórónuveiran getur enn dreifst hratt um samfélög þar sem 20 prósent hafa myndað mótefni.“

Því til viðbótar sé hlutfallið lægra í dreifðari byggðum Svíþjóðar, segir Ryan, og bætir við að menn viti ekki hversu lengi mótefni veitir vörn gegn veirunni.

Hann hrósar þó Svíum í aðra röndina. „Við kunnum að meta hve opnir Svíar eru með að viðurkenna óvissuna um hvaða áætlun er best í baráttunni við veiruna. Það er sýn sem ber að virða.“

Ákveðin lönd hafa innleitt strangt útgöngubann að frumkvæði stjórnmálamanna fremur en á vísindalegum grunni, að því er virðist til að sýna styrk stjórnmálamanna. Mike Ryan segir að Svíþjóð hafi ekki brugðist við á þennan hátt. „Það er aðdáunarvert að Svíþjóð skuli ekki hafa gert það,“ segir hann.

Kona bíður eftir strætó við Slussen.
Kona bíður eftir strætó við Slussen. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina