Árás á meðferðarheimili: 27 látnir

Lögreglumenn í Mexíkó. Myndin er úr safni og tengist fréttinni …
Lögreglumenn í Mexíkó. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Mexíkóska lögreglan handtók um helgina þrjá menn vegna blóðugrar skotárásar á meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur sem 27 manns féllu í. Vopnaðir menn brutust inn á meðferðarheimilið, sem er í borginni Iraputo, síðastliðinn miðvikudag, neyddu fólk til að leggjast í jörðina og skutu það. 

Hinir grunuðu voru handsamaðir af sérsveitarmönnum, að sögn saksóknara sem kallaði verknaðinn „grimmilegan glæp“.

Andres Manuel Lopez Obrador, forseti Mexíkó, hefur fordæmt árásina sem er sú banvænasta sinnar tegundar í Mexíkó það sem af er ári. Upprunalega féllu 24 frá en þrjú þeirra sem slösuðust í árásinni létust einnig síðar. 

Obrador hvatti stjórnvöld í ríkinu þar sem árásin varð til að kanna hvort ofbeldið gæti að hluta til stafað af „samsæri“ á milli yfirvalda og glæpagengja, en ríkið, Guanajuato, er leitt af stjórnarandstöðunni. 

Samkvæmt mexíkóskum fjölmiðlum var árásin liður í baráttu á milli glæpagengja á svæðinu sem hefur staðið yfir um nokkurt skeið. 

mbl.is