Fá ekki að koma til Bretlands

Svarti listinn verður birtur síðar í dag.
Svarti listinn verður birtur síðar í dag. AFP

Bresk stjórnvöld birta í dag lista yfir einstaklinga sem beittir verða refsiaðgerðum undir nýjum reglum sem ætlað er að taka á mannréttindabrjótum. AFP greinir frá og segir nokkra Rússa og Sádí-Araba vera meðal nafna á listanum.

Dominic Raab utanríkisráðherra mun kynna listann fyrir þingheimi í dag, en þeim, sem eru á listanum verður meinað að koma til Bretlands og verða eigur þeirra í landinu frystar.

„Frá deginum í dag mun Bretland hafa vald til að stöðva þá sem eru viðriðnir alvarleg mannréttindabrot í að koma til landsins, veita peningum inn í Bretland og hagnast á viðskiptalífi okkar,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðherrans, sem starfaði áður sem mannréttindalögfræðingur. „Þetta er skýrt dæmi um það hvernig Bretland mun vera leiðandi á heimsvísu í að verja mannréttindi.“

Í grein Financial Times segir að búist sé við að listinn innihaldi nöfn þeirra sem Bretar hafa tengt við dauða rússneska lögfræðingsins Sergei Magnitsky og sádíarabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi.

Magnit­sky var hand­tek­inn árið 2008 eft­ir að hann sakaði rúss­neska emb­ætt­is­menn um stór­felld skattsvik. Hann var sjálf­ur sakaður um skattsvik­in og dó í fang­elsi ári síðar, 37 ára að aldri.

Khashoggi var myrtur í sendiráði Sádí-Arabíu í Istanbúl haustið 2018 en menn tengdir krónprins Sádí-Arabíu voru síðar sakfelldir fyrir morðið.

mbl.is