Prófessor sem gagnrýndi Xi Jinping handtekinn

Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Kínversk yfirvöld hnepptu lagaprófessor sem birti ritgerðir þar sem Xi Jinping, forseti Kína, var gagnrýndur, í hald í dag, að sögn vina mannsins.

Prófessorinn heitir Xu Shangrun og er þekktur fyrir hreinskilni sína og gagnrýni í garð stjórnvalda en í fyrrnefndum ritgerðum hafði Xu gagnrýnt viðbrögð Xi við kórónuveirunni sem og það hvernig hann stjórnar landinu. 

Xu var fluttur af heimili sínu í úthverfi í Peking af fleiri en tuttugu manns, að sögn vinar mannsins sem óskaði nafnleyndar. Xu birti ritgerð í febrúar þar sem hann kenndi menningu blekkinga og ritskoðunnar Xi um útbreiðslu veirunnar í Kína. 

Sagður handtekinn fyrir vændiskaup

Xu er lagaprófessor við Tsinghua háskóla, einn af fremstu háskólum Kína, en áður hafði Xu talað gegn afnámi takmarkana á því hversu lengi forseti mætti sitja í embætti. Það sjónarmið hans kom fram árið 2018, í ritgerð sem dreift var á netinu. 

Fyrrnefndur vinur Xu sagði við fréttastofu AFP að maður sem sagðist vera frá lögreglunni  hafi hringt í eiginkonu Xu, sem býr ekki á sama stað og Xu, og sagt að eiginmaður hennar hafi verið handtekinn fyrir að sækjast eftir vændiskaupum í suðvesturhluta borgarinnar Chengdu. 

Xu heimsótti Chengdu síðasta vetur ásamt fjölda frjálslyndra kínverskra fræðimanna. Óljóst er hvort handtakan sé tengd þeirri ferð en vinurinn sagði ásökunina á hendur Xu „fáránlega og skammarlega“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert