Ríki mega hegna „svikulum kjörmönnum“

Úrskurður Hæstaréttar var samhljóða.
Úrskurður Hæstaréttar var samhljóða. AFP

Ríkjum Bandaríkjanna er heimilt að binda atkvæði kjörmanna í samræmi við niðurstöður forsetakosninga í ríkinu. Þetta er niðurstaða samhljóða úrskurðar Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem gefinn var út í dag. Geta ríkin því beitt lagasetningu til að koma í veg fyrir „svikula kjörmenn“ (e. fatihless electors).

Forseti Bandaríkjanna er í raun ekki formlega kjörinn af kjósendum. 538 kjörmenn sjá um kosninguna, en þeir skiptast á milli ríkja eftir stærð þeirra. Kjörmennirnir eru fulltrúar forsetaframbjóðenda, en sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í ríki hirðir alla kjörmenn þess ríkis (með tveimur undantekningum) og er þeim þá ætlað að kjósa í samræmi við það. 

Kjörmennirnir hafa þó jafnan ekki verið lögformlega bundnir af niðurstöðum kosninganna og dæmi eru um að kjörmenn hafi svikist undan; setið hjá í stað þess að kjósa „sinn“ frambjóðanda, eða jafnvel gengið svo langt að kjósa mótherjann. Slík svik hafa þó aldrei breytt úrslitum forsetakosninga, en í frétt New York Times er athygli vakin á því að í fimm af síðustu 58 kosningum hefði nægt að tíu kjörmenn svikju lit til að breyta gangi sögunnar.

Fimmtán ríki Bandaríkjanna, og höfuðborgin Washington D.C., banna kjörmönnum að kjósa aðra en þá sem þeir höfðu boðið sig fram fyrir og beita sum ríki fésektum fyrir þá sem það gera. Flest önnur ríki láta nægja að fá kjörmenn til að undirrita heiðursyfirlýsingu þess efnis fyrir kosningar.

Svikulir stuðningmenn Clinton komu málinu fyrir dóm

Málatilbúnaðurinn sem kom deilumálinu fyrir Hæstirétt varðaði þrjá kjörmenn Demókrataflokksins í Washington-ríki, sem kusu repúblikanann Colin L. Powell (sem var ekki í formlegu framboði) í kjörmannaráðinu í stað þess að kjósa Hillary Clinton eins og þeir höfðu verið ráðnir til að gera. Samkvæmt lögum Washington-ríkis voru kjörmennirnir þrír sektaðir um þúsund dali hver (140 þús.kr.) fyrir uppátækið og staðfesti Hæstiréttur Washington sektina í fyrra. Mennirnir áfrýjuðu til Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Réttur kjörmanna til að velja frambjóðanda, án þess að vera bundinn vilja kjósenda, hefur verið varinn með vísan til orða Alexanders Hamilton, sem skrifaði í ritgerðasafni sínu, Federalist Papers: „Menn valdir af fólkinu í þeim tilgangi [að velja forseta] eru líklegastir til að geta búið yfir þeim upplýsingum og dómgreind sem nauðsynleg er í svo flókna könnun.“

Í dómi Hæstaréttar er þessum málatilbúnaði hafnað. „Hvorki önnur grein né tólfti viðauki stjórnarskrárinnar bannar ríkjum að skipa aðeins kjörmenn sem bundnir eru tilteknum stjórnmálaflokki,“ segir í dómnum. Þá sé ekkert í sögu þjóðarinnar sem styðji takmörkun á slíku banni, segir rétturinn og bendir á að mörg ríki setji ekki einu sinni nöfn kjörmanna á kjörseðla almennra kjósenda svo vafasamt sé að líta svo á að almennir kjósendur séu að kjósa sér kjörmenn en ekki forseta.

mbl.is