Sakfelld fyrir að „réttlæta hryðjuverk“

Svetlana Prokopyeva yfirgefur dómsal í morgun.
Svetlana Prokopyeva yfirgefur dómsal í morgun. AFP

Rússneska blaðakonan Svetlana Prokopyeva var í dag dæmd til sektargreiðslu fyrir að hafa „réttlætt hryðjuverkastarfsemi“ í máli sem hefur vakið upp hörð mótmæli í Rússlandi. Dómsmálið má rekja til greinar sem hún skrifaði í Radio Free Europe/Radio Liberty, sem er fjölmiðill á vegum bandaríska ríkisins og gefinn út í löndum þar sem fjölmiðlafrelsi þykir ábótavant.

Í greininni ritaði hún um árás sem gerð var á rússneska leyniþjónustustarfsmenn í norðurhluta Rússlands árið 2018 en þá sprengdi 17 ára anarkisti sig í loft upp við byggingu leyniþjónustunnar (FSB) í borginni Arkhangelsk. Í grein sinni tengdi hún sjálfsmorðsárásina við pólitískt andrúmsloft í Rússlandi undir stjórn Vladimirs Pútín, forseta.

Dómurinn komst, sem fyrr segir, að þeirri niðurstöðu að Prokopyeva hefði þar með réttlætt hryðjuverkastarfsemi og var hún dæmd til að greiða 500.000 rúblur í sekt (960 þús.kr.). Stuðningsmenn hennar voru samankomnir í dómsal til að hlýða á dómsuppkvaðninguna og hrópuðu „Skömm!“ og „Hún er saklaus“ þegar dómari las úrskurðinn. Saksóknarar höfðu hins vegar farið fram á harðari dóm, sex ára fangelsisvist og fjögurra ára bann við störfum innan blaðamennsku.

Hættulegt fordæmi

Tugir mannréttindafrömuða skrifuðu undir opinbera yfirlýsingu, sem birt var af Memorial-mannréttindasamtökunum þar sem réttarhöldunum er lýst sem „opinberlega pólitískum“ og með það að markmiði að „kúga rússneska blaðamenn“.

„Blaðamenn eiga rétt á frelsi til að dreifa upplýsingum, ekki aðeins um atburði heldur einnig hugmyndir,“ segir í yfirlýsingunni. Þá höfðu samtökn Blaðamenn án landamæra (RSF) sagt lögsóknina setja hættulegt fordæmi og hvatt rússnesk stjórnvöld til að hætta við.

Blaðamenn hafa mætt auknum ofsóknum í Rússlandi undanfarin misseri. Yfir 30 nafntogaðir blaðamenn sem höfðu lýst yfir stuðningi við Prokopyevu en á annan tug þeirra var tímabundið handtekinn í kjölfar þess.

Í síðustu viku handleggsbraut lögreglumaður í Sankti-Pétursborg blaðamann sem var að fylgjast með kosningum um stjórnarskrárbreytingar í landinu. Þá sögðu helst ritstjórar dagblaðisns Vedomosti, stærsta viðskiptablaðs Rússlands, upp störfum í síðasta mánuði til að mótmæla því sem þeir sögðu ritskoðun hliðholla Pútín. 

mbl.is