Bandaríkin skoða bann við TikTok

Pompeo sagði í viðtali við Fox News í dag að …
Pompeo sagði í viðtali við Fox News í dag að Bandaríkin ættu að íhuga að loka á forritin. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin séu „að skoða“ bann við kínverskum samfélagsmiðlaforritum, þar á meðal TikTok, vegna ásakana um að kínversk stjórnvöld beiti þeim til að njósna um notendur. 

Indversk stjórnvöld hafa nú þegar bannað TikTok, sem nýtur mikilla vinsælda, vegna sjónarmiða um þjóðaröryggi og friðhelgi einkalífsins á meðan önnur lönd eru sögð íhuga svipaðar aðgerðir. 

Pompeo sagði í viðtali við Fox News í dag að Bandaríkin ættu að íhuga að loka á forritin. Þá sagði hann að ríkisstjórnin tæki málið mjög alvarlega og væri vissulega að skoða hvort stjórnvöld ættu að banna forritin. 

Pompeo sagði einnig að Bandaríkjamenn hefðu unnið lengi að því að leysa „vandamál“ kínverskrar tækni í innviðum og merkja mætti „raunverulegar framfarir.“

„Orwelískar“ aðgerðir

Pompeo hefur áður fordæmt það sem hann hefur kallað „Orwelískar“ aðgerðir kínverskra stjórnvalda til að ritskoða aðgerðarsinna, skóla og bókasöfn á sjálfsstjórnarsvæðinu Hong Kong í skjóli nýrra öryggislaga. Með „Orwelískar“ á Pompeo eflaust við aðgerðir sem svipa til þeirra aðgerða sem stjórnvöld beita í bókinni 1984 eftir George Orwell þar sem yfirvöld fylgjast náið með þegnum sínum.  

Yfirvöld í Hong Kong hafa skipað skólum að fjarlægja bækur sem þurfi að endurskoða vegna öryggislaganna, sem gera ákveðnar skoðanir glæpsamlegar, svo sem áköll eftir meira sjálfstæði eða sjálfræði. Bókasöfn hafa tekið úr útláni bækur sem skrifaðar eru af baráttufólki fyrir lýðræði. 

Í síðustu viku samþykkti fulltrúadeild bandaríska þingsins nýjar refsiaðgerðir sem beinast að bönkum sem taka þátt í að brjóta gegn sjálfstjórn Hong Kong. Donald Trump bandaríkjaforseti þarf að skrifa undir löggjöfina svo hún taki gildi. 

mbl.is