Ber enga virðingu fyrir þeim sem ekki bera grímu

Tom Hanks og eiginkona hans Rita Wilson smituðust bæði af …
Tom Hanks og eiginkona hans Rita Wilson smituðust bæði af veirunni í mars. AFP

Leikarinn Tom Hanks, sem smitaðist af Covid-19 í mars á þessu ári, segist ekki bera neina virðingu fyrir þeim sem neita að bera andlitsgrímu á almannafæri á meðan kórónuveirufaraldurinn stendur yfir. Hann og eiginkona hans smituðust bæði við tökur á kvikmynd í Ástralíu. BBC greinir frá.

„Ég næ því ekki, ég hreinlega næ því ekki, þetta er bókstaflega það minnsta sem þú getur gert. Ef einhver ætlar að vera með leiðindi yfir því að þurfa gera það minnsta sem er hægt að gera, þá myndi ég ekki treysta viðkomandi fyrir ökuskírteini,“ sagði leikarinn góðkunni í viðtali af fjölmiðilinn AP.

„Ég meina, þegar þú keyrir bíl, þá verðuru að fylgja hraðatakmörkunum, þú verður að nota stefnuljósin, og þú verður að koma í veg fyrir að þú keyrir á gangandi vegfarendur. Ef þú getur ekki gert þessa þrjá hluti þá ættiru ekki að keyra bíl,“ sagði hann einnig og bætti við:

Kaupir ekki röksemdarfærsluna

„Ef þú getur ekki borið grímu og þvegið hendurnar á þér og gætt að nándartakmörkunum, þá ber ég enga virðingu fyrir þér, maður. Ég kaupi ekki þína röksemdarfærslu.“

Það er nokkuð algengt meðal ákveðinna hópa í Bandaríkjunum að þeir neiti að ganga um með andlitsgrímu á almannafæri. Forseti Bandaríkjanna hefur þverneitað að ganga um með grímu, jafnvel á stöðum þar sem það er skylda. Það eru ekki nema fimm dagar síðan hann fékkst til þess að viðurkenna að grímur væru „algjörlega málið“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert