Biðja Trump um að hætta við aftökur

Donald Trump Bandaríkjaforseti er eindregið hvattur til þess að endurskoða …
Donald Trump Bandaríkjaforseti er eindregið hvattur til þess að endurskoða áform um að hefja aftökur á alríkisgrundvelli á nýjan leik. AFP

Fleiri en 1.000 bandarískir trúarleiðtogar hafa birt opið bréf þar sem þeir hvetja Donald Trump Bandaríkjaforseta eindregið til að hætta við áætlanir um að hefja aftökur fanga sem brotið hafa gegn alríkislögum á nýjan leik. Síðasta aftakan í alríkisfangelsi fór fram árið 2003.

„Á meðan landið okkar berst við COVID-19 faraldurinn, efnahagskreppu og kerfisbundinn rasisma í dómskerfinu, ættum við að einblína á að verja og viðhalda lífum, en ekki að taka fólk af lífi. Hættu við fyrirhugaðar aftökur,“ segir í bréfinu.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í síðasta mánuði að aftökur fanga í alríkisfangelsum myndu hefjast að nýju 13. júlí. Aðeins þrjár slíkar aftökur hafa farið fram síðan dauðarefsing var lögfest að nýju árið 1988.

Ætti að vera það síðasta sem við gerum

Kaþólskir leiðtogar og evangelískir trúarleiðtogar eru meðal þeirra sem skrifuðu undir bréfið til Trump og Bill Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.

„Sem meðlimur evangelísku trúarinnar, er ég niðurbrotinn yfir því að ríkið ætli sér að byrja taka borgara af lífi á nýjan leik. Að hefja aftökur ætti að vera það síðasti hluturinn á listanum,“ sagði Carlos Malace, framkvæmdastjóri samtakanna kristinna kirkna (e. Christian Churches Together).

Hæstiréttur Bandaríkjanna neitaði í síðasta mánuði að fella tilskipunina, um að hefja aftökur að nýju, úr gildi.

Aftökur tíðkast enn í fáum bandarískum ríkjum en á síðasta ári voru 22 fangar teknir af lífi. Flestir sem fangar í Bandaríkjunum hafa verið dæmdir á grundvelli ríkislaga en alríkislög ná yfir glæpi eins og hryðjuverk, hatursglæpi og glæpi sem framdir eru á hersvæðum svo dæmi séu tekin.

mbl.is