Rannsókn dregur kosti hjarðónæmis í efa

Spánverjar bera gjarnan grímur á götum úti þessa dagana eins …
Spánverjar bera gjarnan grímur á götum úti þessa dagana eins og margar aðrar þjóðir. AFP

Spænsk rannsókn vekur upp efasemdir um að hjarðónæmi sé vænleg leið til að takast á við heimsfaraldur kórónuveiru. Fleiri en 60.000 tóku þátt í rannsókninni sem bendir til þess að einungis 5% Spánverja hafi þróað mótefni gegn veirunni, að því er fram kemur í læknisfræðiritinu Lancet

Hjarðónæmi næst þegar nóg af fólki smitast og veiran hættir að lokum að breiðast út. Um það bil 80 - 90 prósent af fólksfjölda þurfa að vera ónæm til að vernda einstakling sem hefur ekki sýkst. 

Algengi COVID-19 mótefna var minna en 3% á strandsvæðum á Spáni en hærra á svæðum þar sem margir höfðu sýkst. 

Kostnaðurinn mannslíf og ofálag

„Þrátt fyrir mikil áhrif COVID-19 á Spáni er það mat okkar að veiran sé ekki útbreidd og útbreiðsla hennar greinilega ófullnægjandi til að veita hjarðónæmi,“ segja höfundar rannsóknarinnar. 

„Það er ekki hægt að ná hjarðónæmi án þess að vera tilbúin í mörg dauðsföll innan áhættuhópa og ofálag á heilbrigðiskerfi. Í þessum aðstæðum eru fjarlægðarráðstafanir og viðleitni til að bera kennsl á og einangra ný tilvik og þau sem smitaðir hafa komist í snertingu við nauðsynleg til að halda faraldrinum í skefjum.“

Rannsóknin er talin vera sú stærsta sinnar tegundar á kórónuveirunni í Evrópu en fleiri en 250.000 hafa greinst með veiruna á Spáni og tæplega 30.000 fallið frá vegna hennar. Veiran virðist þó vera í rénun þar í landi.

mbl.is