Forsætisráðherra lést eftir ríkisstjórnarfund

Amadou Gon Coulibaly, forsætisráðherra Fílabeinstrandarinnar, lést í dag.
Amadou Gon Coulibaly, forsætisráðherra Fílabeinstrandarinnar, lést í dag. AFP

Amadou Gon Coulibaly, forsætisráðherra Fílabeinstrandarinnar, lést í dag, skömmu eftir að hafa verið fluttur í skyndi af ríkisstjórnarfundi á sjúkrahús. 

Coulibaly hafði nýlega snúið aftur til heimalands síns eftir tveggja mánaða dvöl í Frakklandi þar sem hann var í meðferð hjá læknum vegna hjartaveikinda og fékk stoðlegg. Hann fór í hjartaskurðaðgerð árið 2012 þar sem hann fékk nýtt hjarta.

„Ég er kominn aftur til að setjast á minn stað við hlið forsetans, til að halda áfram að þróa og byggja upp landið okkar,“ sagði hann á fimmtudaginn síðastliðinn þegar hann kom frá Frakklandi. BBC greinir frá.

Hinn 61 árs gamli Coulibaly hafði verið kosinn til að fara í forsetaframboð fyrir hönd flokks síns í október eftir að Alassane Ouattara, forseti Fílabeinstrandarinnar, gaf það út að hann myndi ekki gefa kost á sér aftur.

Hann var talin mjög sigurstranglegur og er andlát hans sagt setja forsetakosningarnar í landinu í mikið uppnám. Talið er líklegt að Ouattara gefi kost á sér í hans stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert