Lokuðu netfíkin börn inni í 10 daga

AFP

Hópur karlmanna sem ráku einkareikna meðferðarstöð við netfíkn í suðaustur Kína voru í gær fundnir sekir um að halda börnum í einangrun í allt að tíu daga. Þeir voru dæmdir til fangelsisvistar vegna brota sinna. CNN greinir frá þessu. 

Meðferðarheimilið er eitt af hundruðum sambærilegra sem hafa opnað víðsvegar um Kína á síðastliðnum tíu árum til þess að bregðast við vaxandi áhyggjum af þeim tíma sem ungt fólk eyðir á internetinu. 

Þrátt fyrir víðtæka ritskoðun og aðhaldssamt stjórnkerfi er notendagrunnur internetsins í Kína einn sá stærsti í heimi þar sem 850 milljónir hafa aðgang að vefnum, þar af um 200 milljónir netnotenda á aldrinum fimmtán til 35 ára. 

Meðferðarbúðir ásakaðar um líkamlega misnotkun

Meðferðarheimili, sem gæti verið réttara að kalla meðferðarbúðir vegna ákafrar „meðferðar“ sem er sögð fara þar fram, hafa notið aukinna vinsælda eftir að kínversk yfirvöld ákváðu að viðurkenna netfíkn opinberlega sem geðröskun árið 2008.

Fjöldi neikvæðra ásakana um alvarlega líkamlega misnotkun innan þessara meðferðarbúða hefur leitt til efasemda um ágæti þeirra. 

Árið 2014 lést nítján ára gömul stúlka í borginni Zhengzhou í Henan-héraði í Kína eftir að hún var barin af leiðbeinendum í meðferðarbúðum, samkvæmt kínverskum ríkisfjölmiðlum. Aðrir fjölmiðlar hafa einnig greint frá því að meðferðarbúðirnar hafi notað umdeildar meðferðir, til dæmis rafsegulmeðferð (ECT). 

Ellefu af tólf yngri en átján

Mennirnir sem dæmdir voru hétu Wu, Ren, Zhang og Qu. Þeir voru fundnir sekir um að halda tólf skjólstæðingum sínum í ólöglegri einangrun í allt að tíu daga en ellefu þolendanna voru yngri en átján ára.

Meðferðarheimili mannanna komst í fjölmiðla árið 2017 eftir að yfirvöld tilkynntu að þau myndu kanna ásakanir um að þar væri ströngum líkamlegum refsingum beitt í tilraun til að „rækta siðferðilega persónu unglinga,“ að sögn ríkisfjölmiðla. Þeir greindu frá því að þolendur hefðu sakað starfsfólk um að hafa komið sér fyrir í „litlum svörtum herbergjum“ með ekkert nema teppi og dollu fyrir salerni. 

„Þau fylgdust með mér allan tímann,“ sagði Xuan, einn þolenda í umfjöllun kínverska ríkisfjölmiðilsins Global Times árið 2017. 

Kínversk stjórnvöld hafa gripið til ýmissa ráðstafana á undanförnum árum í viðleitni til að sporna við netfíkn ungmenna. Í nóvember tilkynntu stjórnvöld um aðgerðir sem miðuðu að því að fá ungmenni til að hætta að spila myndskeið á netinu langt fram á nótt. Á virkum dögum mega ungmenni spila á netinu í allt að 90 mínútur og þrjár klukkustundur um helgar. 

Þá er börnum óheimilt að spila tölvuleiki á netinu á milli klukkan tíu á kvöldin og átta á morgnanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert