„Skiptið ykkur ekki af annarra málum“

Stuðningskona Safronov sem var handtekin í Moskvu í dag fyrir …
Stuðningskona Safronov sem var handtekin í Moskvu í dag fyrir að mótmæla handtöku hans. AFP

„Skiptið ykkur ekki af annarra málum,“ segir í færslu rússneska utanríkisráðuneytisins á Twitter. Um er að ræða svar rússneskra stjórnvalda við færslu talskonu bandaríska sendiráðsins í Moskvu þar sem hún lýsti áhyggjum af hömlum á fjölmiðlafrelsi í landinu.

Talskonan, Rebecca Ross, vísaði þar til aðgerða stjórnvalda gagnvart blaðamönnum í Rússlandi. „Fylgist með ítrekuðum handtökum á rússneskum blaðamönnum. Þetta er farið að minna á samstilltar aðgerðir gegn fjölmiðlafrelsi,“ skrifar hún í gær. 

Fyrr um daginn hafði rússneska leyniþjónustan (FSB) handtekið virtan fyrrverandi blaðamann, Ivan Safronov, vegna gruns um landráð. Handtakan vakti ugg og reiði meðal stuðningsmanna hans sem og annarra blaðamanna sem segja að ástæðuna vera refsing fyrir að hafa fjallað um varnarmál Rússa. 

Ivan Safronov.
Ivan Safronov. AFP

Einn af verjendum Safronov segir að blaðamaðurinn fyrrverandi sem áður starfaði hjá dagblöðunum Kommersant og Vedomosti liggi undir grun um að hafa starfað með tékknesku leyniþjónustunni frá árinu 2012. FSB telji að tékkneska leyniþjónustan starfi fyrir Bandaríkin.

Samkvæmt upplýsingum frá FSB á Safronov að hafa safnað saman leynilegum upplýsingum um rússneska herinn, varnar- og öryggiskerfi landsins og afhent leyniþjónustu NATO-ríkis.

Í dag sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar, Dmitrí Peskov, að handtakan tengist ekki á nokkurn hátt starfi Safronov sem blaðamaður. „Við verðum að bíða eftir réttarhöldunum,“ sagði hann. 

AFP

Allar helstu sjónvarpsstöðvar Rússlands eru undir stjórn ríkisins. Blaðamenn sem starfa fyrir prent- og netmiðla kvarta undan sívaxandi hömlum á fjölmiðlafrelsi í landinu og að þeir séu í auknu mæli beittir þrýstingi af hálfu stjórnvalda. 

Á mánudag var blaðamaður í borginni Pskov sektaður um tæplega eina milljón króna fyrir að hafa réttlætt hryðjuverk. Saksóknari hafði í því tilviki krafist sex ára fangelsisdóms en blaðamaðurinn, Svetlana Prokopjeva, hafði tjáð sig um sprengjutilræði.

mbl.is