Ekki nóg gert til að vernda notendur

Ákvörðun Facebook um að banna ekki ummæli Donalds Trump sem …
Ákvörðun Facebook um að banna ekki ummæli Donalds Trump sem brutu gegn gildum miðilsins eru sögð grafa undan borgaralegum réttindum AFP

Facebook hefur ekki gert nóg til að vernda notendur sína frá skaðlegu efni, og ákvörðunin um að banna ekki ummæli Donalds Trump sem brutu gegn gildum miðilsins gróf undan borgaralegum réttindum. Þetta kemur fram í skýrslu um stefnu Facebook, sem tveir lögfræðingar og sérfræðingar í borgaralegum réttindum skrifuðu fyrir fyrirtækið.

New York Times greinir frá.

Samkvæmt skýrslunni hefur Facebook tekið mikilvæg skref í að tryggja borgaraleg réttindi á miðlinum til langs tíma, en áætlanir fyrirtækisins gangi ekki nægilega langt. Þá hafi Facebook leyft hatursorðræðu og upplýsingaóreiðu að viðgangast.

Þrátt fyrir nokkurn árangur á sviði mannréttinda lýsa höfundar skýrslunnar yfir áhyggjum yfir margar ákvarðanir Facebook í slíkum málum kasti skugga á þann árangur.

Sheryl Sandberg segir skýrsluna vera byrjunin á vegferð Facebook
Sheryl Sandberg segir skýrsluna vera byrjunin á vegferð Facebook AFP

Setja slæmt fordæmi

Sérstaklega er minnst á tregðu forráðamanna miðilsins til að taka á ummælum Donalds Trump bandaríkjaforseta, sem að mati höfunda skarast við hatursorðræðu og kúgun kjósenda.

Tregða Facebook er sögð endurspegla viðhorf fyrirtækisins um að „verndun málfrelsis sé mikilvægari en önnur yfirlýst gildi fyrirtækisins.“ Þá telja höfundar þessa ákvörðun setja slæmt fordæmi fyrir aðra.

Byrjun vegferðar Facebook

Í síðasta mánuði lýsti Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook, því yfir að fyrirtækið myndi endurskoða reglur um birtingu efnis á samfélagsmiðlum. Í tilkynningu Zuckerbergs segir að Facebook muni breyta hvernig fyrirtækið tekst á við ofbeldisfullt efni á miðlinum.

Í skýrslunni er mælt til þess að Facebook gangi lengra í reglum sínum um birtingu efnis, meðal annars með því að banna efni sem upphefur eða lýsir stuðningi yfir hvíta þjóðernis- og aðskilnaðarstefnu.

Sheryl Sandberg, rekstrarstjóri Facebook, tilkynnti á miðvikudaginn að skýrslan væri aðeins byrjunin á vegferð Facebook til að taka þessum málum, en ekki endirinn. „Það sem hefur komið í ljós er að við eigum langt eftir. Eins erfitt og það hefur verið að annmarkar okkar hafi verið opinberaðir af sérfræðingum, hefur það án efa verið mjög mikilvægt ferli í fyrirtækinu okkar,“ sagði í tilkynningu Sandberg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert