Götulistamaður sakaður um nauðganir

Montmartre-hæðin í París.
Montmartre-hæðin í París. AFP

Franskur götulistamaður er til rannsóknar hjá lögreglunni í París en á þriðja tug kvenna lagði fram kæru á hendur honum á þriðjudag. Saka þær hann um nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi.

Samkvæmt upplýsingum frá saksóknara bárust kærur á hendur götulistamanninum Wilfrid A frá 25 konum á aldrinum 19 til 49 ára. Wilfrid A er þekktur fyrir götulistaverk sín í París. Samkvæmt AFP lýsa konurnar honum sem kynlífssjúku óargadýri sem nýtti sér frægð sína til þess að komast í samband við konurnar sem hann réðst á. Um hópmálssókn er að ræða en áður höfðu þrjár konur lagt fram kæru á hendur honum fyrir svipaðar sakir. 

Ekki lengur ást heldur nauðgari.
Ekki lengur ást heldur nauðgari. Skjáskot

Frétta og tískutímaritið Néon, sem er vinsælt meðal ungs fólks, birti 22. júní frásagnir 16 kvenna sem sumar voru ólögráða þegar ofbeldið átti sér stað. Greindu þær frá nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi af hálfu listamannsins.

Wilfrid A varð mjög þekkur í París eftir hryðjuverkaárásirnar í nóvember 2015 eftir að vörumerki hans: Ástin er allsstaðar (L’amour court les rues), varð að tákni fyrir seiglu og von Parísarbúa. En femínistar hafa nú tekið sig til og strokað yfir orðið ást á strætum Parísarborgar og bætt þess í stað við nauðgari. Því er það ekki ástin sem er allsstaðar heldur nauðgarinn.

Svæðið í kringum Sacré-Cœur kirkjuna er vinsælt meðal ferðamanna og …
Svæðið í kringum Sacré-Cœur kirkjuna er vinsælt meðal ferðamanna og margir götulistamenn sýna listir sínar þar. AFP

Wilfrid A býr og starfar á Montmartre-hæðinni í 18. hverfi Parísar og stundaði hann, að sögn kvennanna, að ganga upp að ungum konum á götum úti og taka þær tali. Hann jós yfir þær gullhömrum og bað þær um að sitja fyrir hjá sér eða verða andlit vörumerkis hans. Þegar hann náði að tæla þær með sér heim bauð hann konunum upp á áfengi eða fíkniefni. Í kjölfarið varð hann ágengur og ofbeldisfullur að sögn kvennanna sem kærðu hann. Sumar þeirra sem hann braut á telja að hann hafi byrlað þeim ólyfjan til þess að ná fram vilja sínum.

Wilfrid A varð mjög þekktur í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París …
Wilfrid A varð mjög þekktur í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París í nóvember 2015. Skjáskot

Í umfjöllun Néon segir að svo virðist sem Wilfrid A hafi verið stöðugt á eftir ungum konum síðasta áratuginn. Lögreglan hóf rannsókn á Wilfrid 26. júní eða skömmu eftir að tímaritið kom út. 

Lögmaður Wilfrid A, Joseph Cohen-Sabban, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að rannsókn hefjist ekki í tímariti heldur á lögreglustöð og að skjólstæðingur hans hafi hug á að segja sína hlið við lögregluna. 

Place du Tertre á Montmatre-hæðinni.
Place du Tertre á Montmatre-hæðinni. AFP

Mál listamannsins kemur upp á svipuðum tíma og nýr innanríkisráðherra, Gerald Darmanin, var skipaður i embætti en skipunin er afar umdeild í Frakklandi þar sem rannsókn stendur yfir á því hvort hann hafi nauðgað konu árið 2009 líkt og hann er sakaður um. Darmanin neitar því staðfastlega.

mbl.is