„Herra lögregluþjónn gerðu það ekki skjóta mig“

Mynd af George Floyd í Houston, Texas.
Mynd af George Floyd í Houston, Texas. AFP

George Floyd grátbað lögreglumennina ítrekað um að skjóta sig ekki og kvartaði yfir innilokunarkennd á sama tíma og þeir reyndu að troða honum inn í lögreglubifreið síðustu mínúturnar sem hann lifði. Floyd var drepinn af lögreglunni á götuhorni í Minneapolis í maí. Handrit af upptöku úr líkamsmyndavél lögreglunnar var birt í fjölmiðlum í gær.

Handritið leiðir það berlega í ljós að Floyd var að reyna að vera samvinnuþýður við lögreglu en var dauðhræddur við lögreglumennina. Hann sagði þeim að hann væri með COVID-19 (líkt og krufning leiddi síðar í ljós) og að hann óttaðist að deyja þar sem hann næði ekki andanum.

Á sama tíma og einn lögreglumannanna, Derek Chauvin, þrýsti hné að hálsi Floyd og hélt honum þannig niðri á jörðinni, sagði Chauvin að það hlyti að vera í lagi með hann þar sem hann gæti talað og eyddi miklu súrefni í að biðja um hjálp. 

AFP

„Þeir eiga eftir að drepa mig,“ heyrist Floyd segja þar sem lögreglumaðurinn heldur honum niðri. „Maður, þeir eiga eftir að drepa mig,“ segir Floyd samkvæmt handritinu. Floyd hætti að hreyfa sig nokkrum mínútum síðar og var úrskurðaður látinn. 

Handritið er upp úr hljóðupptökum líkamsmyndavéla tveggja af fjórum lögreglumönnum sem tóku þátt í handtökunni og eru ákærðir fyrir aðild að morðinu, J. Alexander Kueng og Thomas K. Lane. Handritið var lagt fram í gær en verjandi Lane er að reyna að fá ákærunni á hendur honum mildaða þar sem ekki séu nægar sannanir fyrir því að hann hafi framið glæp.

Derek Chauvin, Tou Thao, J. Alexander Kueng og Thomas Kiernan …
Derek Chauvin, Tou Thao, J. Alexander Kueng og Thomas Kiernan Lane. AFP

Samkvæmt handritinu spurði Lane Chauvin — sem var háttsettasti lögreglumaðurinn á vettvangi, hvort þeir ættu ekki að færa Floyd til en Chauvin neitaði og sagði að þeir myndu bíða eftir læknisaðstoð. Chauvin sleppti ekki takinu á hálsi Floyd þrátt fyrir að hann væri orðinn metvitundarlaus. Floyd, sem var 46 ára, var haldið í rúmar átta mínútur á gangstéttinni af Chauvin. Í kjölfar dauða Floyds brutust út ein mestu mótmæli sem átt hafa sér stað í sögu Bandaríkjanna. Þar sem fólk mótmælti kynþáttamisrétti og mismunun í landinu og hafnaði ofbeldi lögreglu. 

Berlega kemur í ljós í handritinu að Floyd er dauðhræddur við lögregluna og tekur fram að hann hafi verið skotinn af lögreglu og vilji ekki að það gerist aftur. Hann segist ekki vilja fara inn í lögreglubílinn og að engin ógn stafi af honum. Hann segir ítrekað að hann nái ekki andanum og að hann óttist að deyja. 

AFP

Lögreglumennirnir höfðu brugðist við beiðni frá Neyðarlínunni en starfsmaður Cup Foods hafði hringt þangað og kvartað yfir viðskiptavin sem greiddi með fölsuðum 20 dala seðli. Kueng og Lane voru fyrstir á vettvang og starfsmaðurinn benti þeim á hvar Floyd sat ásamt tveimur öðrum í bíl þar skammt frá.

Upptakan úr myndavél Lane sýnir þegar hann nálgast bifreiðina og kallar til Floyd fimm sinnum að sýna á sér hendurnar. Þegar Floyd hlýðir ekki dregur Lane upp byssu. „Ég biðst afsökunar, fyrirgefðu,“ eru viðbrögð Floyd. „Ég gerði ekkert af mér... Hvað á ég að hafa gert? Hvað gerðum við af okkur herra lögreglumaður?“

AFP

Þegar Lane biður Floyd um að koma út úr bílnum biðst Floyd afsökunar nokkrum sinnum og biður lögreglumanninn ítrekað um að skjóta sig ekki.

„Ég biðst afsökunar, mér þykir þetta svo leitt,“ segir Floyd og bætir við að hann hafi verið skotinn af lögreglu við svipaðar aðstæður og hann vilji ekki að það gerist aftur. „Herra lögregluþjónn gerðu það ekki skjóta mig, gerðu það.“ „Ég ætla ekki að skjóta þig,“ svarar Lane að því er fram kemur í Washington Post en hægt er að lesa handritið hér

Samkvæmt frétt New York Times segist Floyd ekki ná andanum oftar en tuttugu sinnum þessar mínútur sem hann var í haldi lögreglunnar áður en hann lést. 

BBC

NYT

J. Alexander Keung.
J. Alexander Keung. AFP
Thomas Kiernan Lane.
Thomas Kiernan Lane. AFP
mbl.is