Yfir 12 milljónir smita og 550 þúsund dauðsföll

Tæplega 550 þúsund eru látnir af völdum kórónuveirunnar í heiminum og tæplega 12,1 milljón hefur greinst með staðfest smit í 196 löndum. Af þeim hafa rúmlega 6,4 milljónir náð fullum bata.

Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar,Tedros Adhanom Ghebreyesus, segir að sundraður heimur geti ekki varist kórónuveirunni og vísar þar til þess að Bandaríkin hófu formlegt ferli útgöngu úr WHO fyrr í vikunni. 

„Við getum ekki varist þessari farsótt sem klofinn heimur... Sameinuð er lausnin nema við viljum gefa óvininum forskot, veirunni sem hefur tekið heiminn í gíslingu,“ sagði hann í morgun í ávarpi sem hann flutti í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Genf.

Algjörlega óvíst er hversu margir hafa smitast af veirunni þar sem í mörgum löndum eru aðeins tekin sýni úr þeim sem eru með greinileg sjúkdómseinkenni eða eru alvarlega veikir.

Bandaríkin eru enn í forystu þar sem rúmlega 32 þúsund þeirra þriggja milljóna sem hafa fengið smit staðfest eru látnir. Tæplega milljón Bandaríkjamenn hafa náð sér af veirunni. 

Alls eru 68 þúsund látnir í Brasilíu og staðfest smit eru 1,7 milljónir. Í Bretlandi eru tæplega 45 þúsund látnir en staðfest smit eru 287 þúsund. Á Ítalíu eru dauðsföllin 35 þúsund og 242 þúsund smit. Í Mexíkó eru tæplega 33 þúsund látnir en staðfest smit eru 275 þúsund.

Víða hefur komið upp önnur bylgja smita, þar á meðal í Victoria-ríki í Ástralíu. Þar hefur nú verið brugðið á það ráð að einangra ríkið og setja íbúa Melbourne í sóttkví en borgin er næst fjölmennasta borg landsins. Næstu sex vikurnar verður fimm milljónum borgarbúa óheimilt að yfirgefa heimili sín nema brýna nauðsyn beri til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert