Bolsonaro lofsyngur hýdroxí­klórókín

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, sem er smitaður af kórónuveirunni, segir að hann hafi það gott og ráðlagði notkun á malaríulyfinu hýdroxí­klórókín. 

Bolsonaro, sem er 65 ára gamall, flutti vikulegt ávarp sitt á Facebook í þetta skiptið en því var streymt beint af forsetaskrifstofunni. Hann virtist, samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar, vera við góða heilsu og var einn á skrifstofunni ólíkt því sem yfirleitt er þegar hann flytur ávarpið. Yfirleitt er túlkur með honum sem og ráðherrar og háttsettir embættismenn.

Allt frá því faraldurinn braust út hefur forsetinn gert lítið úr hættunni sem fylgir veirunni og gagnrýnt aðgerðir heilbrigðisyfirvalda sem miða að því að draga úr útbreiðslu COVID-19.

Bolsonaro segir að þegar honum fór að líða illa undir lok síðustu viku hafi hann farið að taka eina töflu af gýdroxí­klórókín á degi hverjum.  „Ég tók hýdroxí­klórókínog það virkaði. Ég hef það gott þökk sé Guði. Þeir sem gagnrýna lyfið ættu að minnsta kosti að benda á annan valkost,“ segir Bolsonaro. Hann neitar því hins vegar að reka áróður fyrir lyfinu. 

Alls eru tæplega 70 þúsund látnir af völdum COVID-19 í Brasilíu en rúmlega 1.200 létust þar síðasta sólarhringinn.

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, flutti ávarpið á Facebook.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, flutti ávarpið á Facebook. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert