Hneykslismál varpar skugga á andlát borgarstjórans

Syrgjendur heimsækja minnisvarða um Park Won-soon borgarstjóra í Seúl.
Syrgjendur heimsækja minnisvarða um Park Won-soon borgarstjóra í Seúl. AFP

Park Won-soon hafði löngum verið þekktur bandamaður kvenréttindabaráttunnar í Suður-Kóreu, en nú er borgarstjórinn talinn hafa fyrirfarið sér í kjölfar þess að ritari hans ásakaði hann um kynferðislega áreitni.

New York Times fjallar ítarlega um andlát borgarstjórans í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, sem fannst látinn í fjallshlíð Bungak-fjalls í norðurhluta borgarinnar í gærkvöldi.

Á miðvikudag blés Park borgarbúum von í brjóst með ræðu um áætlanir um atvinnuuppbyggingu og baráttu gegn loftslagsbreytingum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Sama dag fór ritari hans til lögreglu og lagði fram kæru á hendur borgarstjóranum vegna kynferðislegrar áreitni, en í kærunni mun hún hafa lýst því hvernig Park snerti hana á óviðeigandi hátt og sendi henni kynferðisleg skilaboð í gegnum skilaboðaforrit, oft seint um kvöld.

Daginn eftir hringdi Park sig inn veikan og aflýsti öllum fundum sem voru á dagskrá hjá honum þann dag og skildi eftir skilaboð til fjölskyldu sinnar á heimili þeirra þar sem hann bað um að lík hans yrði brennt og að öskunni yrði dreift við leiði foreldra hans.

„Ég bið alla afsökunar og þakka öllum sem hafa farið með mér í gegnum lífið,“ handskrifaði Park á miðann sem hann skildi eftir sig. 

Park fannst látinn í skógi vaxinni hlíð í borginni nokkrum klukkustundum síðar og er talinn hafa fyrirfarið sér og þannig bundið óvæntan endi á ævi eins þekktasta stjórnmálamanns Suður-Kóreu, að því er segir í frétt NYT, en sem borgarstjóri Seúl var Park næstvaldamesti stjórnmálamaðurinn í Suður-Kóreu og var hann jafnvel talinn líklegur eftirmaður Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu.

Réttarfræðingar bera lík borgarstjórans af vettvangi.
Réttarfræðingar bera lík borgarstjórans af vettvangi. AFP

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, sem fundaði með Park á þriðjudagsmorgun, minnist hans sem frábærs leiðtoga og segir hans verða sárt saknað.

Park útskýrði ekki hvers vegna hann hefði ákveðið að taka eigið líf og er ómögulegt að segja nákvæmlega til um hvað hann ætlaðist fyrir, en í Suður-Kóreu er opinberum persónum sem verða uppvísar að hneyksli gjarnan fyrirgefið ef þær fremja sjálfsvíg og saksóknarar líklegir til að loka rannsóknum þeim tengdum. Þannig töldu margir að fyrrverandi forsetinn Roh Moo-hyun, sem sakaður hafði verið um spillingu og framdi sjálfsvíg árið 2009, hafi orðið fórnarlamb íhaldssamra, pólitískra andstæðinga sinna.

Park átti yfir höfði sér ítarlega rannsókn vegna kærunnar fyrir kynferðislega áreitni, sem hefði jafnframt líklega haft í för með sér alvarlegt bakslag í pólitískan feril hans, en #metoo-hreyfingin hefur haft mikil áhrif í Suður-Kóreu líkt og annars staðar og hafa valdamiklir menn verið látnir standa skil á gjörðum sínum.

Fjöldi var saman kominn við háskólasjúkrahúsið í Seúl, þangað sem …
Fjöldi var saman kominn við háskólasjúkrahúsið í Seúl, þangað sem borgarstjórinn var fluttur. AFP

Að því er fram kemur í umfjöllun NYT hefði hneyksli þetta haft veruleg áhrif á það hvernig litið var á Park sem persónu og stjórnmálamann, en hann var yfirlýstur femínisti og stofnaði fyrsta jafnréttisráð borgarstjórnar Seúl.

„Vaknaðu, Park Won-soon!“

Fleiri en 770 lögreglu- og slökkviliðsmenn tóku þátt í leitinni að Park. Það var svo leitarhundurinn Sobaek sem fann Park eina mínútu yfir miðnætti að staðartíma. Samkvæmt umsjónarmanni hundsins hafði Park bakpoka og vantsflösku meðferðis, og hékk hatturinn hans á trjágrein.

Fjöldi borgarbúa vakti og beið frétta af leitinni að borgarstjóranum, og þegar sjúkrabifreiðin sem flutti Park kom á háskólasjúkrahúsið biðu þar hundruð manns og kölluðu „vaknaðu Park Won-soon, við elskum þig, Park Won-soon. Hvernig geturðu farið þegar svo mikil vinna er eftir?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert