Hrósaði forsetanum og hleypti af stað sniðgöngu

Robert Unanue, forstjóri Goya Foods, sést hér flytja ræðu sína …
Robert Unanue, forstjóri Goya Foods, sést hér flytja ræðu sína við Hvíta húsið, sem valdið hefur óánægju sumra viðskiptavina fyrirtækisins. AFP

Hluti af viðskiptavinum bandaríska matvælaframleiðandans Goya Foods hyggjast sniðganga vörur fyrirtækisins eftir að Robert Unanue, framkvæmdastjóri þess, hrósaði Donald Trump Bandaríkjaforseta á fimmtudaginn. Fyrirtækið framleiðir einkum matvæli sem eru vinsæl meðal fólks sem á ættir að rekja til Rómönsku Ameríku, en Trump hefur verið ásakaður um að ala á fordómum gagnvart því. 

Unanue, sem sjálfur er af rómönskum uppruna, var viðstaddur sérstaka athöfn í Hvíta húsinu á fimmtudaginn, þar sem Trump hleypti af stokkunum sérstöku átaki til þess að efla tækifæri spænskumælandi Bandaríkjamanna til að sækja sér nám og fá atvinnu. Sagði Unanue við það tækifæri að Bandaríkjamenn væru sannarlega blessaðir að eiga leiðtoga eins og Trump Bandaríkjaforseta, sem væri iðinn við að reisa hluti. 

Ummælin vöktu nokkra reiði og hafa ýmsir framámenn úr röðum spænskættaðra Bandaríkjamanna heitið því að kaupa vörur Goya ekki framar vegna ummælanna. Þá urðu myllumerkin #Goyaway og #BoycottGoya meðal þeirra vinsælli á Twitter í Bandaríkjunum. Fyrirsætan Chrissy Teigen og þingkonan Alexandria Ocasio-Cortez eru á meðal þeirra sem hafa heitið því að versla ekki aftur vörur frá Goya. 

Segir um þöggunartilburði að ræða

Þeir sem vilja sniðganga fyrirtækið hafa einnig rifjað upp ýmis ummæli Trumps í kosningabaráttu sinni árið 2016, en þar hallmælti Trump innflytjendum frá rómönsku Ameríku og hét því að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna til þess að halda ólöglegum innflytjendum frá Mexíkó fjarri. 

Unanue sagði hins vegar að um þöggunartilburði væri að ræða, og að hann ætlaði sér ekki að biðjast afsökunar á að hafa hitt forsetann. Spurði hann hvort að það ætti að segja nei og þykjast vera upptekinn þegar forseti Bandaríkjanna hringdi. „Ég sagði það ekki við Obama-hjónin og ég sagði það ekki við Trump forseta“.

Stuðningsmenn fyrirtækisins hafa bent á að það hafi sent mikið af matvælum til bæði fátækraaðstoðar og til aðstoðar fólks sem hefur orðið illa úti í kórónuveirufaraldrinum.

Frétt BBC um málið

mbl.is