Sviku milljónir út úr hlutabótaleiðinni

Fjársvikarar hafa nýtt sér kórónuveiruna til að svíkja fé út …
Fjársvikarar hafa nýtt sér kórónuveiruna til að svíkja fé út úr sjóðum sem var ætla að koma fólki til aðstoðar. AFP

Embætti saksóknara í París rannsakaðar nú víðtæk fjársvik víða um Frakkland þar sem fólk hefur óskað eftir hlutabótum vegna tímabundinna aðstæðna vegna kórónuveirunnar.

Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst var ríkisstjórn Frakklands, líkt og stjórnvöld víða um heim, fljót til þess að koma á kerfi þar sem fólk gat fengið greidd um 84% af heildarlaunum ef það ekki stundað vinnu vegna veirunnar. Svo nefnda hlutabótaleið. 

Þúsundir fyrirtækja sóttu um greiðslur úr hlutabótasjóðnum sem gerði milljónum Frakka kleift að komast hjá alvarlegum tekjumissi fyrstu mánuði ársins. Alls voru greiddir um 24 milljarðar evra út úr hlutabótasjóðnum á fyrsta mánuðinum. 

Fljótlega tóku starfsmenn hlutabótasjóðsins eftir því að grunsamlega margar umsóknir voru eins eða mjög svipaðar. Oft var fólk þar að nota kennitölur fyrirtækja sem ekki höfðu sótt um greiðslur úr sjóðnum. 

Að sögn saksóknara í París, Rémy Heitz, hafa yfir 1.740 slíkar falsumsóknir borist svo vitað sé og notaðar kennitölur 1.069 ólíkra fyrirtækja. Alls er þar óskað eftir millifærslu inn á meira en 170 ólíka bankareikninga. 

Þannig hafi 1,7 milljónir evra verið sviknar út en starfsfólki hlutabótaleiðarinnar tókst að stöðva yfir sex milljóna evra greiðslur sem verið var að reyna að svíkja út úr sjóðnum. 

Til að mynda tókst að rekja 18 slíkar falsbeiðnir í Occitanie-héraði einu saman. Um er að ræða greiðslur upp á 868 þúsund evrur og hefur tekist að endurheimta 421 þúsund evrur af fjárhæðinni. 

Þrátt fyrir hlutabótaleiðina hafa stjórnvöld varað við því að um 800 þúsund störf glatist vegna lokun fyrirtækja í tvo mánuði vegna COVID-19 en í maí var byrjað að heimila fyrirtækjum að hefja starfsemi að nýju.

mbl.is