Brúðkaup nú óheimil í Íran

Forseti Íran, Hassan Rouhani.
Forseti Íran, Hassan Rouhani. AFP

Hassan Rouhani, forseti Írans, kallaði í dag eftir því að samkomur á borð við brúðkaup verði bannaðar í landinu. Kemur yfirlýsing forsetans í kjölfar mikillar útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi. Eru vonir bundnar við að með færri samkomum verði hægt að ná betri tökum á faraldrinum, án þess þó að stöðva hagkerfi landsins. Frá þessu greinir Reuters. 

Skömmu eftir ávarpið tilkynnti lögreglustjórinn í höfuðborg landsins, Tehran, að brúðkaup og minningarathafnir væru hér eftir tímabundið bannaðar. Náist betri árangur í baráttunni verði ákvörðunin þó endurskoðuð. 

Íran síðustu tvo mánuði hægt og rólega létt á takmörkunum í landinu með það fyrir augum að koma hagkerfinu aftur af stað. Hefur það þó valdið því að aukinn kraftur hefur færst í útbreiðslu veirunnar. Síðastliðinn sólarhring létust 188 manns af völdum veirunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert