Láta þúsundir fanga lausa vegna veirunnar

AFP

Yfirvöld í Kaliforníu ætla að láta átta þúsund fanga lausa til þess að draga úr líkum á að kórónuveiran breiðist hraðar út í yfirfullum fangelsum ríkisins.

Samkvæmt upplýsingum frá fangelsismálayfirvöldum í Kaliforníu verða fangarnir væntanlega látnir lausir í ágúst en þegar hafa 10 þúsund fangar verið látnir lausir.

Gripið er til þessara aðgerða til að bæta öryggi og heilbrigði þeirra fjölmörgu sem dvelja í fangelsum ríkisins og starfsfólk fangelsanna að því haft er eftir yfirmanni fangelsismála í Kaliforníu, Ralph Diaz, í tilkynningu.

San Quentin fangelsið en yfir 1.400 fangar og starfsmenn hafa …
San Quentin fangelsið en yfir 1.400 fangar og starfsmenn hafa smitast af COVID-19. AFP

Ákvörðunin er tekin í kjölfar mikillar fjölgunar smita í einu af elstu og þekktustu fangelsum Kaliforníu, San Quentin, en yfir 1.400 fangar og starfsmenn hafa greinst smitaðir. Alls eru 113 þúsund fangar í fangelsum í Kaliforníu. 

Kalifornía er fjölmennasta ríki Bandaríkjanna en þar búa um 40 milljónir. Yfir 300 þúsund smit hafa verið staðfest í ríkinu og rúmlega 6.800 dauðsföll.

mbl.is