Unglingur drepinn af hákarli

AFP

Sautján ára gamall piltur lést í dag eftir að hafa verið bitinn af hákarli þegar hann var á brimbretti við austurströnd Ástralíu.

Í tilkynningu frá lögreglunni í Nýju Suður-Wales kemur fram að sjónarvottar hafi séð hákarlinn ráðast á hann við Wooli Beach, sem er um 630 km norður af Sydney. Aðrir einstaklingar sem voru einnig á brimbrettum komu drengnum til aðstoðar og í land þar sem lífgunartilraunir voru reyndar án árangurs. Þetta er fimmta manneskjan sem deyr í ár í Ástralíu eftir að hafa orðið fyrir árás hákarla. 

Fyrir viku síðan lést 36 ára gamall maður sem var við veiðar með spjóti (spearf­is­hing) á vinsælum ferðamannastað, Fraser Island. 

mbl.is