Duda með 50,4% samkvæmt útgönguspá

Andrzej Duda, forseti Póllands.
Andrzej Duda, forseti Póllands. AFP

Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur naumt forskot á mótframbjóðanda sinn, Rafal Trzaskowski samkvæmt útgönguspám sem birtar voru í pólskum fjölmiðlum klukkan sjö. Samkvæmt þeim er Duda spáð 50,4 prósenta fylgi, en Trzaskowski 49,6 prósentum.

Kjörstöðum í forsetakosningunum í Póllandi var lokað nú klukkan sjö, en hér á landi geta pólskir ríkisborgarar kosið í sendiráðinu í Þórunnartúni til klukkan níu í kvöld.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Pawel Bartoszek borgarfulltrúi að kosningarnar væru þær mest spennandi í manna minnum. Benti Pawel á að í útgönguspám væru aðeins íbúar í Póllandi spurðir, en reynslan sýni að brottfluttir Pólverjar sem búsettir eru í öðrum Evrópulöndum halli sér frekar að frjálslyndari frambjóðandanum.  

„Í Bretlandi er því spáð að hann [Trza­skowski] sigri með 75% at­kvæða og ég myndi halda að svipað yrði uppi á ten­ingn­um hér [á Íslandi],“ sagði Pawel. Væru mjótt á munum í útgönguspám gæti því farið svo að úrslit kosninganna lægju ekki fyrir fyrr en síðustu utankjörfundaratkvæðin eru talin á þriðjudag.

Rafal Trzaskowski kýs í dag.
Rafal Trzaskowski kýs í dag. AFP
mbl.is