Fyrrverandi njósnarar dæmdir í fangelsi

Tveir fyrrverandi starfsmenn frönsku leyniþjónustunnar hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir njósnir en þeir játuðu að hafa komið leynilegum upplýsingum til kínverskra yfirvalda. 

Réttarhöldin fóru fram í París og var dómurinn kveðinn upp á föstudag. Pierre-Marie H., sem er 69 ára gamall, var dæmdur í tólf ára fangelsi en Henri M., sem 73 ára, fékk átta ára dóm. Eiginkona Pierre-Marie var einnig dæmd í fjögurra ára fangelsi, þar af tvö skilorðsbundið. 

Mennirnir voru handteknir í desember 2017 en hafa verið lausir gegn tryggingu síðan þá.

Árið 1997 var Henri skipaður starfsmaður Direction générale de la sécurité extérieure, DGSE, í Peking en hann starfaði í sendiráði Frakka þar. Hann var sendur heim árið 1998 eftir að upp komst að hann átti í ástarsambandi við kínverskan túlk sendiherrans. Nokkrum árum síðar fór hann á eftirlaun og snerti aftur til Kína árið 2003 þar sem hann kvæntist túlkinum og settist að á Hainan-eyju í Suður-Kínahafi. 

Pierre-Marie H., sem aldrei starfaði erlendis fyrir Frakkland, var handtekinn á flugvelli í Sviss með talsverða fjármuni eftir að hafa átt fund með kínverskum tengilið á eyju í Indlandshafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert