Fyrsta tollafgreiðslan í áratugi

Myndin er tekin við landamæraæfingu á síðasta ári, áður en …
Myndin er tekin við landamæraæfingu á síðasta ári, áður en Bretar gengu úr Evrópusambandinu. AFP

Breska ríkisstjórnin hefur keypt um 11 hektara lands við höfnina Kent, um 30 kílómetrum frá borginni Dover. Þar stendur til að koma upp tollafgreiðslu til að afgreiða þá tíu þúsund vörubíla sem koma dag hvern frá Frakklandi gegnum Ermarsund. Verður þar fyrsta tollafgreiðslustöðin sem Bretar setja upp til að afgreiða vörur sem berast frá Evrópusambandinu.

Landareignin var keypt í flýti og sveitarstjórn aðeins gefinn nokkurra klukkutíma fyrirvari um að landið væri nú í eign breska ríkisins áður en þeim var gert að gera íbúum viðvart um fyrirhugaðar framkvæmdir og mögulegt ónæði sem þeim kann að fylgja.

Í bréfi til sveitarstjórnar frá Rachel Maclean, þingmanni í samgöngunefnd breska þingsins, segir að vinna á svæðinu hefjist strax á mánudag; svæðið verði girt af, þar fari fram jarðvinna og bygging tímabundinna vinnuskúra. Áætlanagerð er ekki lokið en stefnt er að því, að sögn þingmannsins, að framkvæmdir verði komnar vel á veg þegar aðlögunarferli Breta (e. transition period) lýkur um áramót, Bretar ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu og tollfrelsi lýkur.

Framkvæmdirnar eru liður í margmilljóna punda áætlun ríkisstjórnarinnar sem ber nafnið Get Ready for Brexit en á mánudag verður nýtt landamærafyrirkomulag og innflytjendakerfi kynnt. Þegar hefur verið gefið út að hið síðara mun byggja á stigakerfi að ástralskri fyrirmynd, þar sem umsækjendur eru metnir út frá fjölda þátta og þeim gefin stig eftir því hve frambærilegir þeir eru.

Guy Verhofstadt, Evrópuþingmaður sem fór fyrir samninganefnd Evrópuþingsins í viðræðunum út útgöngu Breta úr sambandinu, tjáir sig um málið á Facebook. „Árið 1988 tilkynnti Margaret Tatcher stolt að viðskiptahindranir væru á útleið í Evrópu. Árið 2020 reisir sami flokkur hindranir á ný. Við getum aldrei tekið framförum sem gefnum!“ segir þingmaðurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert